Jól á Grænlandi

Alveg frá síðustu jólum, sem við héldum á Íslandi, höfum verið hörð á því að halda þessi jól, jólin 2011 á Grænlandi. Á okkar heimili, með okkar jólamat, jólaskrauti og hefðum og með okkar eigin nefi.

Þar sem ég er alltaf alger haugur á jólunum og hef alltaf þráð að eiga sannkölluð náttfata jól, þar sem ég þarf ekki að fara úr náttfötunum öll jólin og fæ að haugast í sófanum eða upp í rúmi í ró og næði með mína nammikistu, góða bók eða mynd. En þar sem jólin eru hátíð fjölskyldunnar þá eru jólin alltaf fullbókuð af matar, kaffi og kakóboðum með tilheyrandi guðaveigum, sparifötum og “tilhafningi”. Sem krefst þess að maður þarf að standa upp úr sófanum, leggja frá sér nammikistuna og fara úr náttfötunum. Og jafnvel troða sér í þröngar sokkabuxur með tilheyrandi andþrengslum, kláðafactorum og óþægindum, kjól sem einhverra hluta vegna hefur minkað um nokkur númer síðan á aðfangadagskvöld og binda upp hárið með blóðlausum handleggjum (sökum leti og hreyfingaleysis) og skakklappast á háu hælunum í fljúgandi hálkunni milli húsa.  En auðvitað er þetta alltaf skemmtilegt og notalegur partur af jólunum svo auðvitað vill maður ekki sleppa þessu.

Í ár sá ég fram á drauma jólin. Stóru náttfatajólin. Meira að segja var planað að fara í náttfötin fyrir kvöldmat á aðfangadag og borða rammíslenskan hamborgarahrygginn á náttfötunum.

Jebb, við vorum með vaðið fyrir neðan nefið og sendum heim til Íslands góðan og vel ígrundaðan innkaupalista yfir það sem okkur vantaði til að halda alvöru jól. (og vorum snemma í því, því ekki ætluðum við að klikka á aðal atriðunum.) Efst á lista voru auðvitað hangikjötið, suðusúkkulaði, hamborgarahryggur á beini  (því það er ekki í boði hér á landinu græna)  smá malt og appelsín og sitt lítið af hverju úr íslensku nammihillunum. (til að setja í nammiboxið svo hægt væri að haugast með stæl). Að lokum nokkur jólatímarit til að glugga í yfir jólatebollanum síðustu dagana fyrir jólin. Já ekkert átti að klikka og Dísa mágkona send  eins og berserkur búða á milli í jólainnkaupin fyrir okkur grænlensku jólasveinana. Svo var öllu komið á skip vel tímanlega fyrir brottför og áætlaður komutími til Nanortalik var 20 des.  Svo nú var hægt að einbeita sér að alvöru jólaundirbúningi með bakstri og jólagjafastússi.Jólaundirbúningurinn var skemmtilegur og ekkert svo frábrugðinn þeim íslenska. Íris kom í byrjun des eftir langt og ævintýralegt ferðalag  með tilheyrandi grænlenskum töfum og frestunum (sem er nú saga út af fyrir sig) . En til að gera langa sögu enn lengri, þá tók það 5 daga, segi ég og skrifa, að komast alla leið. Hér á Grænlandi  gengur allt miklu hægar en í öðrum löndum. Þá er ég ekki bara að tala um klukkuna, heldur bara allt. Og allt virðist vera leyfilegt og enginn segir neitt. Það má bara fresta flugi, að því er virðist að ástæðulausu, og enginn segir neitt. Það er allt í lagi þó það vanti heilu vöruflokkana í verslanir og jafnvel helstu nauðsynjar ekki fáanlegar í heilu bæjarfélögunum, og enginn segir neitt!! Á Íslandi verður allt vitlaust ef fólk þarf að bíða lengur en fimm mínútur í röð í matvörubúðinni!!  Svo það var lítið annað að gera en að „taka grænlendinginn á þetta“  láta axlir síga og segja ekki neitt. Hún skilaði sér á endanum og þá máttu jólin koma. Við skemmtum okkur konunglega við jólabaksturinn og jólatiltekt milli þess sem við sátum við saumavélina. Það var nóg að gera í selskinnsbransanum og var oftar en ekki saumað fram á nótt. Og ekki þótti mér verra að hafa félagsskap(ekki af internetinu) þar. Þetta áttu í upphafi, ekki bara að vera drauma-náttfata-jól heldur átti undirbúningurinn og aðventan sem slík að vera hin rólegasta. Dúllerí út í eitt. En einhvern veginn kem ég því alltaf þannig fyrir að ég er önnum kafin fram á síðustu mínútu og á svo engan tíma eftir fyrir mínar eigin jólagjafir eða mitt dullerí. En það er bara gott. Og gaman frá því að segja að nú hef ég stofnað lítið fyrirtæki í kringum selskinnið, með eigin fyrirtækjanúmer og allt. En til að gera langa sögu enn lengri… neinei, segi frá því síðar JEn allavega, þá var ég mjög fegin þegar 1. Desember rann upp. Þá gat ég  loksins komið út úr jólaskápnum með mín jólalög og jólaljós. Þar sem ég hef alla mína tíð unnið í blómabúð með tilheyrandi snemmbúnum jólaundirbúningi, þá held ég að líkamsklukkan mín sé stillt inn á jólaundirbúning í október. Bara rétt eins og við þurfum að sofa á svipuðum tíma sólahringsins, verðum yfirleitt svöng á sama tíma o.s.frvs. þá dett ég í eitthvert "jóla coma" í byrjun október. Þetta er mikið feimnismál þar sem venjulegt fólk er enn að láta framkalla sumarleyfismyndirnar.  Og heldur enn dauðahaldi í yljandi minningar frá sumrinu. Eða er á fullu í svona haust stússi, taka slátur, tína ber og sulta, taka upp kartöflur og guð má vita hvað. Og ekki farið að, svo mikið sem hugsa um jólin. Nei ,þá er mín komin á kaf í gömlu jólablöðin. Með jólate í bolla, sem hún hafði hamstrað jólin áður og sett í frystikistuna til að eiga í te dreitil í október. Byrjuð að plana hvað eigi að baka, hvernig jólagjafir eigi að búa til og hvað skal föndra. Byrjuð að hanna jólakortin í huganum og sanka að sér efni í kortin, því auðvitað er stefnt á að senda út jólakort eigi síðar en 1. Des. (jee right) Einkasyninum var þrælað í jólakortaföndrið þetta árið. Sönglaði hann yfir föndrinu grænlensk jólalög hástöfum og gaf innfæddum ekkert þar eftir. Það gekk nú vonum framar miðað við ofvirkni tendensa sem hann gjarnan sýnir. En smátt og smátt með nokkrum jólakortum á dag, tókst að föndra upp í allan þann fjölda jólakorta sem voru á jólakortalistanum þetta árið. Þá var bara að finna tíma til að skrifa á kortin. –sem er allt annar handleggur…!!  En þrátt fyrir að vera svona mikil jólakerling þá elska ég líka haustið. Þó ég taki ekki slátur, þá tek ég nú smá haustverka rispu  milli þess sem ég missi míg í jólaæðið. Ég tók að sjálfsögðu upp kartöflurnar sem ég setti niður í vor, týndi nokkur krækiber og allt það. En haustverkin snerust þó að mestu um jólin. Eins og fjallageit æddi ég upp um fjöll og firnindi að tína tejurtir. Svo mikið týndi ég að við megum þakka fyrir að jurta stofninn lifi þessa tínslu af. Allt í þágu jólanna. Því jólagjöfin í ár voru handsaumaðir  “grænlenskir”  tepokar með handtýndum telaufum. (hvorki meira né minna) Þar með var mínum haustverkum lokið og ekkert annað að gera en að halda áfram að laumast  og læðupokast í jólaskápnum.Desember leið hratt með sínum jólaundirbúningi, saumaskap og auðvitað vinnunni í búðinni. Sem ég reyndar sagði upp eftir að hafa fengið fyrsta launaseðil í hendurnar. En ég kláraði að koma fyrir jólasendingunni sem kom í byrjun desember (eins og ég sagði áður, gerist allt mjög hægt og ekkert stress í gangi þó það séu að koma jól) og vann því fram í miðjan desember.  Auðvitað var ég ekkert laus við jólastressið þetta árið þó ég búi í “ekkert stress landi”. En það er einmitt þess vegna sem ég lenti í mínu jólastressi. Það á ekki vel saman framleiða vörur í stresslausa landinu og selja vörur til Íslands, lands stress og ákafa. En það er ekki við kúnna mína að sakast, auðvitað vilja þeir fá sínar jólagjafir á réttum tíma undir tréð þó mínum löndum þyki það ekkert issjú. Ég var nefnilega upp á eina grænlenska konu komin með að panta og kaupa selskinnið af. Ég var að sjálfsögðu tímanlega með mína pöntun, rétt eins og  með jólamatinn.  En að sjálfsögðu gerðist ekkert , ég rak á eftir þessu í tæpar þrjár vikur þangað til ég gafst upp og reddaði mér fyrir horn á annan hátt. Alveg á síðasta snúning, því auðvitað átti eftir að sauma fjöldann allan af lúffum og töskum og jólin að bresta á! En það bjargaðist allt saman, að mestu.  Þess vegna kippti ég mér einhvern veginn ekkert upp við þær fréttir að skipinu með jólamatnum okkar og hluta af jólagjöfunum hefði seinkað og væri ekki væntanlegt fyrir en á aðfangadagsmorgun.  Og vörurnar ekki afgreiddar fyrr en þann 27. Des. Enn og aftur tókum við grænlendinginn á þetta með lafandi axlir og smá Pollyönu líka. „nú jæja, við höldum þá bara aftur jól þegar sendingin okkar kemur í hús“ –það er ekki eins og við eigum ekki einhverja spennandi villibráð í kistunni.

Þorláksmessa var svolítið öðruvísi. Það er alltaf einhver stemming yfir hinni íslensku þorláksmessu. Skötulyktin yfir öllu er einhvern veginn byrjunin á jólunum. Hér var engin skata á boðstólum. Ekki svo mikið sem vond lykt af einhverjum af þessum illa lyktandi grænlenska mat að finna. Óneitanlega saknaði ég þess að komast ekki í skötuveislu til mömmu. (við vorum í staðinn bara flott á því og fengum okkur sushi) En þetta er jú partur af því að halda jólin á Grænlandi.  Við fengum snjóinn og góða veðrið svo ekki höfðum við yfir neinu að kvarta og ekkert annað að gera en að drífa sig í bæinn í búðarráp og kaupa síðustu jólagjafirnar og möndlu í desertinn.  Já hlæið bara!! Það eru nokkrar búðir hérna í þorpinu og sumstaðar meira að segja gott úrval.  Hugi tók stóran þátt í versluninni og fann í einni búðinni forláta inniskó.... Sagði forláta? Ég meinti forljóta.. Hann var snöggur að snara þeim upp á afgreiðsluborðið eftir að hafa rekið augun í þá. Þegar ég spurði hann hvort hann ætti pening , rétti hann fram höndina að pabba sínum og sagði ákveðinn „gemmér“.  Út gekk hann, sérdeilis lukkulegur með loðfóðraða croccs  spiderman inniskó  í poka í annari og greiðslukvittun í hinni. 

Þó miðbær Nanortalik sé smár þá fengum við samt smjörþefinn af laugavegs stemningunni. Sama gleðin ríkti hér eins og þar. Og eins og grænlendingum sæmir voru allir mjög glaðir og brosmildir og allir að óska okkur gleðilegra jóla. Hér er þó ekki sama kaupmannsgleðin eins og heima á Íslandi. Búðirnar loka á venjulegum tíma svo það er eins gott að klára öll innkaup fyrir kl 6 á þorláksmessu.  Ef eitthvað gleymist, þá er lítið við því að gera því jólin byrja á aðfangadagsmorgun en ekki kl 6 eins og hjá okkur.  Og því allar búðir (og skipaafgreiðslur) lokaðar. Jólagjafirnar eru opnaðar um morguninn svo er dagurinn tekinn rólega með heimsóknum og huggulegheitum. Klukkan 6 sameinast fjölskyldan svo yfir jólamatnum.  Við fengum óvænta og gleðilega heimsókn á aðfangadag. Nokkrir krakkavinir okkar náðu okkur á náttfötunum og ég enn að pakka inn síðustu gjöfunum. Voru þau mjög hissa á að við vorum ekki enn komin í jólafötin og búin að opna pakkana . Hugi var að vonum spenntur og ekki minkaði spennan þegar hann fékk að raða pökkunum undir tréð.  Ég í einlægni trúði að pakkarnir fengu að vera í friði það sem eftir lifði dags. (einmitt!!) En ég átti fullt í fangi með að halda honum frá jólapökkunum og fékk hann því að opna pakka af og til, til að halda ró sinni. Eða.... ekki... spennan var svo svakaleg að hann fékkst ekki til að borða einn munnbita eða sitja kyrr í svo mikið sem 30 sekúndur. Áður en við náðum að byrja að opna pakkana var hann búinn að pissa þrisvar sinnum í buxurnar!!  Svo þannig fór að Hugi var á nærbuxunum að opna restina af pökkunum og við hin svindluðum og fórum í sparifötin (jólasveinninn gaf mér svo fínan kjól svo ég mátti til með að nota hann.) En jólanáttkjóllinn fékk  að hanga á herðatré eitthvað fram eftir kvöldi. Undur og stórmerki gerðust svo á jóladag. Ég dreif mig úr náttfötunum, (eldsnemma um hádegisbilið)sleppti því að haugast og fór í göngutúr og heimsókn á jóladag. Og líka á annan í jólum!!  Þetta hefur bara ekki gerst svo elstu menn muna. Allt fór á annan veg en ráðgert var. Engin náttföt á aðfangadagskvöld, ekkert haugast yfir nammikistunni og bók og enginn „jólamatur“..fyrr en eftir jól.  Og reyndar ekki fyrr en eftir áramót. (samkvæmt nýjustu fréttum 3.janúar) Þá höldum við bara aftur jólin. Með hangikjöti og laufabrauði, jólapökkum og heitu súkkulaði. (og kannski desert með möndlu en ekki poppmaís)  Það þýðir aðeins eitt; að ég er ekkert of sein að senda restina af jólakortunum sem ekki náðist að skrifa á fyrir fyrri jólin. Ég næ því eftir allt saman fyrir jól.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband