Sönn smásaga um örlög tölunnar

Fjaðrafokið í kringum töluna ætlaði engan erndi að taka, hún var búin að sitja föst í slímugu nefinu í sex daga  og útlitið ekki bjart!  Rauð, meðalstór og myndarleg átti hún að tróna á toppi húfunnar í íslensku fánalitunum. Þar til hún var rifin á brott frá hinum tölunum af litlum kámugum fingrum Huga litla.  Hann var snöggur til, hann hrifsaði töluna og hljóp inn í herbergið sitt. Þar settist hann á gólfið og skoðaði vandlega töluna í bak og fyrir. Honum leist vel á, svo vel að hann ákvað að prufa að sleikja hana ofurlítið. Mamma hans var marg búin að segja við hann að það væri bannað að setja dót í munninn og hann vissi það vel og gegndi því. Þess vegan lét hann sér nægja að  sleikja pínu og skoða, sleikja pínu meira  og… Svo stakk hann henni  upp í nefið sitt og ýtti á eftir   með fingrinum svo hún stakkst á bólakaf inn í blaut og dimm nefgöngin. Mamma hans var ekki búin að banna honum að setja hluti í nefið svo það hlaut að vera í lagi. Eða hvað? Það þrengdi vel að tölunni og Hugi byrjaði að væla og tárast. Hann hljóp til mömmu sinnar með tárin í augunum og byrjaði að hnerra og hnerra. Mamman sat við saumavélina og vissi ekki að Hugi hafði tekið töluna. Hún hélt bara að Hugi væri að kvefast þangað til Hugi fór að gráta og ýtti tölunni enn lengra inn í nefið. Þá áttaði mamman sig og kíkti upp í nebbann og sá þá veslings töluna blasa við. En Hugi litli hafði ýtt henni svo langt inn að það var ekki nokkur leið að ná henni út. Aumingja Hugi, sat uppi með rauða tölu í nebbanum og mamman gat ekkert gert nema að fara með hann á spítalann og vonað að læknirinn gæti náð tölunni út. Það var komið kvöld á Grænlandi og myrkur. Og laugardagssteikin við það að verða tilbúin. Nú var ekkert annað í stöðunni en að slökkva á ofninum og saumavélinni og drífa sig niður á spítala. Þar tók á móti Huga vinaleg grænlensk hjúkka. Sem sagði Huga að leggjast á stóran bakteríufríann bekkinn. Svo sótti hún vasaljós ofan í skúffu og lýsti upp í nefið. Talan var farin að venjast myrkrinu og bleytunni varð um og ó að fá þetta skæra ljós á sig og vildi bara fá að sitja sem fastest. Hjúkkunni leist ekkert á blikuna, og hringdi í lækninn, sem var ný búinn að poppa og setja spólu í tækið. Tölunni til mikillar gleði nennti læknirinnn ekki að koma svo talan fékk að sitja sem fastast og Hugi sendur heim með öngulinn í rassinum og töluna í nebbanum. Honum var sagt að koma aftur næsta morgun, þá væri læknirinn við. Hugi hafði áður hitt lækninn í kaupfélaginu, hann var mjög undarlegur útlits, með grátt hárstrý í allar áttir, kolsvartur, með enn svartari rákir eftir endilöngum kinnunum. Hann kom ekki frá Grænlandi heldur frá svörtustu Afríku. Hann gaf Huga 20 danskar krónur og brosti sínu blíðasta svo skein í gular tennurnar. Hugi beitti sig kjarki og tók við krónunum skelfingu lostinn yfir þessum stórskrýtna manni. Það var því kannski ágætt að læknirinn vildi ekki koma upp á spítala því Hugi hefði orðið enn hræddari og guð má vita hvernig talan brygðist við þessari sýn þegar hún yrði dregin út í dagsbirtuna. Heim á leið héldu Hugi og talan, mamman og pabbinn þar sem laugarsdagssteikin beið í ofninum, vel elduð og tilbúin til átu.

Daginn eftir var Hugi hinn rólegasti og ekki laust við að talan væri örlítið sýnilegri. Mamman og pabbinn ákváðu því að bíða og sjá hvort talan gægðist ekki bara betur niður og gleymdi sér og dytti á endanum út. Dagurinn leið og talan passaði sig að fara ekki of neðarlega svo hún dytti ekki. Henni leið vel þarna í hlýjunni og bleytunni og vildi sig hvergi hreyfa. Henni var líka illa við birtuna þarna úti svo hún sat sem fastast. Þrátt fyrir hopp og skopp og óþekktarskap í Huga litla sat hún og sat og ákvað að stríða Huga sér til skemmtunar. Hún byrjaði að dilla sér og dansa svo Hugi ræfillinn táraðist og táraðist og á endanum fór   hann að hnerra og hnerra með tilheyrandi hávaða og gusugangi. Við það bærðist talan og þrýstist neðar í nefgöngin. Þrumu og hnerra lostin náði talan taki og kom sér vel fyrir aðeins neðar í nebbanum og varð að sætta sig við ljósskímuna sem læddist inn um nasirnar á Huga. Talan dauðsá eftir þessum fíflagangi og hét því að gera þetta ekki aftur. Hún beitti öllum sínum kröftum til að komast ofar og innar í hlýjuna og notaði tækifærið á meðan Hugi svaf að læðast aftur á þann stað sem hún var áður og sat þar sem fastast. Talan hrökk upp með andfælum þegar Hugi hoppaði fram úr rúminu sínu. Það var kominn nýr dagur og nú skyldi haldið á spítalann og draga töluna út með valdi. Huga stóð ekki á sama þegar hann var teymdur inn í sama pyntingaherbergið og þarna um kvöldið. Þar tók á móti honum ósköp venjulegur danskur læknir í hvítum slopp og með hlustunarpípu um hálsinn. Hugi litli  barðist um á hæl og hnakka þegar þessi brjálaði maður í sloppnum hélt honum niðri og lýsti upp í nefið á honum og augun svo tátin streymdu eins og stórfljót niður kinnarnar. Talan sat sem fyrr, á sínum stað og ætlaði sig ekki að gefa. Læknirinn slökkti á ljósinu, hristi hausinn og sagði að senda þyrfti Huga litla með þyrlu til Nuuk. Á sjúkrahús skyldi hann og þar skal svæfa drenginn og draga töluna út. Sigri hrósandi og myrkrinu fegin tók talan sigur dansinn og dillaði sér og sveiflaði en hélt sér þéttingsfast svo hún rúllaði ekki út. Með það var Hugi sendur heim til sín og  við tók löng bið eftir símtali frá sjúkrahúsinu.

 Tveir langir dagar liðu áður en símtalið kom. Nú var stefnan tekin á Nuuk með viðkomu í Nararsuak. Talan átti aldeilis ferðalag fyrir höndum umvafin Huga litla. Talan hafði það auðvitað gott og kvartaði ekki, annað mátti segja um veslings litla Hugann sem burðaðist hvert fótmál með tölufjandann í nebbanum. Þess þá heldur mátti leggja upp í langferð, sem byrjaði með þyrluflugi til Narsarsuak. Þegar þyrlan tók á loft og Hugi sá til jarðar varð hann logandi hræddur og kleip fast í hendina á mömmuni.  Hann var feginn og glaður þegar hann lenti í Narsarsuak. Talan sem liggur í vellystingum í hávaða og hræðslufríu nefinu hafði ekki yfir neinu að kvarta og lét sér hvergi bregða.  Hugi var heldur glaðari þegar hann fékk að taka strætó á hótelið. Á hótelinu hitti hann fullt af krökkum, sem hlupu og léku sér, hoppuðu og skoppuðu um hótelgangana. Hugi lét sitt ekki eftir liggja og hljóp eins og hann ætti lífið að leysa. Talan mátti hafa sig alla við að halda sér, við hamaganginn fór að leka meir og meir úr nebbanum og æ erfiðara fyrir töluna að halda velli.  Á þrjóskunni hékk hún og var hvergi bangin og við það sat.  Hún vissi ekki að á morgun væri stefnan tekin á Drottningarspítalann í Nuuk og þá væri voðinn vís, hún ætti ekki roð í verkfæri svæfingalæknanna og á endanum yrði hún rifin út með töngum og tólum í skerandi birtuna. Og hvað svo? Enn og aftur sneri lukkan tölunni í vil. Þegar Hugi litli vaknaði daginn eftir tilbúinn í flugferð til Nuuk var svartaþoka úti svo varla sást milli húsa. Ekki var gott útlitið og bar ekki á öðru en að Hugi fengi að dúsa eina nótt í viðbót í Narsarsuak. Og talan þar með. Eftir strætóferð á flugstöina og til baka aftur var það komið á hreint. Ekkert flug fyrr en seint næsta dag. Enn fagnaði talan. Hún dauð sá eftir að hafa ekki tekið með sér klappstýru dúska í fánalitunum til að getað fagnað með stæl! Hugi hins vegar græddi annan dag í hamagang og fjör og ekki annað að sjá að hann uni sér sæll og glaður með töluófreskjuna í nefinu. Næsti dagur heilsaði með sólargeislum  í gegnum þokuna og sá ekki betur en að væri að létta til. Eftir mikla og hatramma baráttu þoku og sólar hafði sólin betur. Og á endanum hlammaði Hugi sér niður í flugvélinni degi á eftir áætlun. Loks kom að því að Hugi var lagður inn á spítalann. Eftir nokkur óþekktarköst og mikinn hamagang var hægt að klæða drenginn í náttföt og leggja hann í sjúkrarúmið. Talan var farin að segja til sín eftir sex daga dvöl í nebbanum. Hugi litli var orðinn lystalaus og kominn með hita. Þessi sambúð mátti varla vera mikið lengri. Eftir allskyns þukl, káf, viktun og mælingu var ákveðið að læknirinn myndi kíkja á Huga í bítið morguninn eftir.  Klukkan sex þrjátíu næsta dag var Hugi vakinn og sendur í sturtu. Grút syfjaður og þreyttur stóð hann nötrandi og  skjálfandi undir bununni á meðan talan stein svaf. Að því búnu var hann settur í allt of stóran hvítan náttkjól og plástraður í (handar)bak og fyrir og sveltur í þokkabót. Við tók að því er virtist endalaus bið. Hungrið og þorstinn var heldur betur farinn að segja til sín og aumingja Hugi gekk á milli krana og bað um vatn. Á meðan baðaði talan sig í mjúku og volgu nefslíminu og hafði það huggulegt. Loksins, eftir langa bið mætti háls nef og eyrna læknirinn á vakt. Huga var þá loks dröslað eftir löngum göngum inn á læknastofu og þess freistað að ná tölunni út án þess að svæfa litla ræfilinn. Hugi var alls ekki hress með þessa meðferð og spriklaði og öskraði eins og lífið væri að leysa. Talan var nú loks sannfærð um að Hugi væri hennar bandamaður og vildi ekki að hún yfirgæfi partýið. Það tísti í tölunni og hún undraði sig á þessu veseni og fjaðrafoki, hvers vegan í ósköpunum mátti hún ekki búa þarna? Talan hrökk upp frá þessum vangaveltum við að allt í einu var kominn ískaldur og blautur bómullarhnoðri upp að henni. Og ekki lyktaði hann vel. Fyrr en varði var hún orðin ringluð og dofin og í kringum hana sveimuðu bleikir fílar. Henni leið alveg óskaplega vel og hún var ekki frá því að öskrin hans Huga litla væru orðin að fuglasöng. Hugi litli barðist um, bálreiður við lækninn fyrir að vera að troða þessu blauta drasli upp í nebbann. Að lokum gafst lænirinn upp. Það verður að svæfa drenginn. Talan í banastuði hoppaði hæð sína fyrir að vinna enn eina viðureignina. Svo tók hún þrefalt heljarstökk þegar hún heyrði lækninn segja að best væri að gera það á mánudaginn. Hún var búin að græða tvo daga í viðbót. Það sló á gleðina þegar mamman tók til máls og sagði að það væri of langt að bíða, drengurinn væri orðinn lasinn og það væri búið að undirbúa hann fyrir svæfinguna og það skyldi standa. Gleðin rjátlaði af tölunni og við tók timburmennska og vanlíðan. Huga kitlaði í nefið og potaði I tíma og ótíma. Þetta var undarleg tilfinning að vera svona dofinn í nebbanum. Nú varð að bíða eina ferina enn eftir lokaákvörðun. Hugi svangur og þyrstur og talan slöpp og timbruð biðu nú eftir hvað verða vildi. Ekki leið á löngu þar til hjúkkan mætti með fréttirnar.  Í svæfingu skal hann og það fljótt. Talan var auðvitað ekki par hrifin af þessari ákvörðun. Nú væri henni ekki lengur til setunnar boðið. Loks ran stundin upp. Huga var rúllað niður á neðri hæðina í rúminu sínu og mamman hélt þéttingsfast í hendina hans. Þegar í svæfingarstofuna kom var mamman sett í skó og slopp og forláta grænt ský sett á hausinn hennar. Hugi fékk líka svoleiðis og dúnmjúkan ísbjörn til að knúsa.  Hugi var nú pínu hræddur við öll þessi tól og tæki og þetta sloppaklædda folk allt um kring sem bullaði tóma vitleysu í þokkabót. Ekki var laust við að talan væri örlítið smeik. Birtan í herberginu var slík að allt varð bleikt inni í nefinu og óttaðist hún aðra árás. Mamman faðmaði Huga litla að sér og hjúkkan lagði illa lyktandi og kalda grímu að vitum Huga. Hann var ekki ánægður með þesssa meðferð en fékk engu ráðið. Eftir að hafa andað nokkrum sinnum að sér þessu óþverra og illa lyktandi efni varð hann að játa sig hægt og rólega sigraðan. Hann ranghvolfdi augunum og þagnaði. Hann var steinsofnaður. Talan hafði nú fundið betri lykt um ævina og skildi ekkert hvaðan á sig stóð veðrið. Aftur fór hún að heyra þennan fugla söng og bleiku fílarnir mættu í öllu sínu veldi og svo varð allt svart. Hugi rankaði við sér skömmu síðar í rúminu sínu með ísbjörninn og skýið. Nú fékk hann að upplífa timburmennskuna sem talan fékk áður að prufa. Honum leið ekki vel og varð alveg bálreiður við mömmu sína fyrir að leggja þetta á hann. Hvaða mömmur gera svona lagað? Eftir langt og strangt reiðikast gat hann ekki meir og sofnaði. Seinna um daginn vaknaði hann kátur og hress og feginn að vera laus við töluna. Og auk þess ekki svo margir dagar þangað til hann gæti lagt upp í langferð aftur heim. Talan hins vegar hefur mátt muna fífil sinn fegurri. Eftir að hafa verið kroppuð út með ískaldri og oddhvassri tönginni og svift með látum út í æpandi birtuna var henni skellt ofan í lítið álform. Þar var hún látin dúsa eins og hver önnur tala. Öll út bíuð í blóðugt nefslímið og horslummu. Hún óttaðist að dagar hennar væru taldir. Að henni yrði hent í ruslið og urðuð með botnlöngum og kúkableyjum af sjúkrahúsinu. Það eru ekki þau örlög sem hún óskaði sér. Því var ekki að heilsa. Mamman tók töluna með sér í beygluðu álforminu og setti ofan í tösku. Þar skal hún bíða sinna örlaga, sem skraut í ramma. Og minnisvarði um ferðalagið ógurlega sem ætlaði seint endi að taka…….

 

Köttur útí mýri, setti upp á sig stýri, úti er ævintýri…………. Eða hvað??

 

 

   

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ji þvílíkt ævintýri fyrir lítinn dreng :) En alveg frábærlega skrifuð smásaga hjá þér Heiða! Og gott að talan er komin úr nös, Huga hlýtur að líða töluvert betur ;)

Andrea Gylfadóttir (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 01:21

2 identicon

Gott að talan skilaði sér að lokum ;)

Harpa (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 15:06

3 Smámynd: Arndís Baldursdóttir

Dásalett, Heiða að þessi saga skyldi enda vel, og hve vel og skemmtilega hún er skrifuð, hvað skyldi ævintýri tölunnar hafa kostað ?  Og, er þetta sjúkratryggingamál ?

Knús

Addý

Arndís Baldursdóttir, 7.10.2009 kl. 23:33

4 identicon

Það ótrúlega við þetta allt saman er að ferðin kostaði bara eina tölu!! (fyrir okkur) öll heilbrigðisþjónusta hér er "ókeypis" þegar þú borgar skatt. Ég þurfti ekki að hugsa fyrir neinu, allt flug pantað og greitt og allt transport milli flugvallar og sjúkrahúss, hótel, matur, allt!! Eitthvað annað en heilbrigðiskerfið heima á íslandi sem versnandi fer...

Heiða (IP-tala skráð) 8.10.2009 kl. 13:26

5 Smámynd: Ísbjörn

Þetta er snilld hjá þér Heiða!

Gott að Hugi er laus við töluskömmina. Margrét mín losnaði við aðskotahlutinn samdægurs þegar þurfti að svæfa hana og barkaþræða til að ná árans Pleimóíshokkípökknum sem sat fastur. En allt er gott sem endar vel. Snilldarskrif, þú ert svo sannarlega á réttri braut í skrifunum þínum, þ.e. ef þú hefur einhvern tíma í þau.

Með bestu kveðju

Sóley Vet

Ísbjörn, 15.10.2009 kl. 10:10

6 identicon

Er þetta ekki bara góð saga í eitt stykki barnabók fyrir jólin ;)

Slauga frænka (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 18:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband