Bak-þankar

Alltaf skal manni hefnast fyrir gengdarlausa letina !! Að minnsta kosti kemst ég ekki upp með gott letikast nema fá það hressilega í bakið. Hver kannast svo sem ekki við það??  Þessi vetur hefur bókstaflega slegið öll met hvað leti og trassaskap varðar. Ég hef sjaldan ef ekki aldrei “hugsað” jafn mikið um heimilið eins og í vetur. Listinn yfir hugmyndir og verkefni sem ég ætlaði að leysa, hefur ekki gert neitt annað en að safna ryki og lengjast. Ég ætlaði algjörlega að leggja heiminn að fótum mér í saumaskap. Hefja stórframleiðslu á allskyns “gúrmee” varning. Klára að skrifa bókina sem ég lagði mikið kapp og vinnu við síðasta sumar. (Alveg komin með tíu í útvíkkun og allt að gerast, þegar skrifandinn vék fyrir saumandanum.) Ég ætlaði að vinna vinnuna mína, vera móðir, húsmóðir og eiginkona (ógift þó). Og leggja mig alla fram. Sá mig fyrir mér í blómakjól með svuntu, uppsett hárið og varalit, taka á móti eiginmanninum í hádeginu með heitan mat, barnið klætt og strokið, Kaka í ofninum og allt skínandi hreint eins og í Ajax auglýsingu frá sjötta áratugnum. Ofurkona með allt á hreinu, með útstrikaðan verkefnalista og nægan tíma fyrir hobbý og huggulegheit. En því var ekki að heilsa. Í staðinn hef ég varla lyft litla fingri, ekki einusinni til að setja á mig varalit, hvað þá meir!! Ég hef opnað og lokað ísskápnum aftur og aftur án þess að henda útrunni og illa lyktandi  matvöru í ruslið. Horfði á sama þvottinn svo vikum skipti úti á snúrum og lét rigna í hann súru regni svo þvotturinn var bókstaflega orðinn litlaus, glær og krumpaður. Lokaði augunum fyrir matarleifum og drullublettum á gólfinu og vonaði að þegar ég opnaði augun væru þeir farnir. Klofað yfir þvott og leikföng út um öll gólf og látið sem ekkert sé þegar stofugólfið hefur litið út eins og vígvöllur. Horfði á blessaða gullfiskana synda um í gulleitu og gruggugu vatninu. Ég þakka fyrir að maðurinn minn, eins og róbót, eldar oftast matinn af sinni alkunnu snilld og hef ég ekkert verið að gefa færi á mér við þá iðju nema endrum og eins. Eins og sannur karlmaður heyrir hann ekkert þegar ég kvarta undan leti og aðgerðarleysi í sjálfri mér og skíta og drasl stöðullinn hans töluvert hærri en minn svo hann hefur ekkert kvartað, raunar bara kunnað ágætlega við þetta ástand. Þá hefur hann ekkert þurft að horfa undir iljarnar á kellingunni á þeytingi út um allt hús með tuskuna á lofti eða ryksuguna í botni. Allt með kyrrum kjörum og nóg að hlusta eftir stykk-orðunum.   Eins og ég hef komið inn á áður, þá hugsa ég gjarnan upphátt og tauta með sjálfri mér hvað beri að gera næst og hvers sé þörf á að gera. Er hann alveg hættur að leggja við hlustir. Það er alveg nóg að hlusta eftir stikkorðunum. Þegar ég tuða með sjálfri mér “ætli sé ekki kominn tími til að taka inn þvottinn” sprettur hann á fætur og rífur niður þvottinn. Eða blabla bla blablabla bla út með ruslið. Þá er hann rokinn með því sama út með ruslið. Þetta er ákaflega þægilegt þegar letin er í hámarki og enginn vilji til eins eða neins. En hve lengi má þetta viðgangast??  Ég hef lofað mér á hverjum degi að vera dugleg á morgun. En eins og hver annar ósvikinn alþingismaður hef ég svikið það loforð án þess svo mikið sem skammast mín eða blikka. Og sökkt mér ofan í annarra manna bækur eins og svæsnasti bókadóni og varla nennt að klæða mig. En öll él birtir um síðir. Sólina tók að hækka á lofti með tilheyrandi hlýindum og snjórinn hvarf og jörðin drakk allt vatnið. Þá lifnaði heldur betur yfir minni. Gaus upp í mér berserkurinn og gífurleg löngun til að róta í blómabeðum og búa til gangstéttir. Ég gaf skít í rusl og drasl. Snaraði mér í gúmmístígvél, hermannabuxur og setti á mig varalit og fór út. Tók hjólbörurnar föstum tökum og arkaði á yfirsnúningi út um allar grundir og safnaði grjóti. Í sæluvímu byrjaði ég á nýjum grjóthlöðnum göngustíg og sveif um á bleiku framkvæmdarskýi.  En svo kom að skuldadögum.. Ég vaknaði í framkvæmda ham en gat mig hvergi hreyft. Í annað skiptið á ævinni lætur BAKIÐ undan og segir stopp! Svo nú sit ég, á meðan ég skrifa þennan pistil,  hreyfihömluð á morgun sloppnum iðandi af löngun til að taka til hendinni. Lít í kringum mig og horfi á ruslið og draslið. Og blessuð gæludýrin!! þeir Nemo og Kaffikínó.  Ó nei!! Fiskur í hlaupi!!  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband