Þessir andskotar!!

Það er ekki laust við að það gjósi upp í manni reiðin (eina ferðina enn) við að lesa um sukkið og svínaríið í íslensku samfélagi. Þó fátt komi manni á óvart eftir að hafa fylgst með í fjarlægð allan þennan tíma.  Þó ég hafi ekki undan miklu að kvarta og margir séu miklu verr staddir  en ég þá fæ ég ekki lengur orða bundist...Á meðan þessir andskotar (afsakið EKKI orðbragðið) léku sér í prinsa og kónga leik með peninga íslenskra skattborgara sem annarra borgara var almenningur (eins og ég og fleiri) að bisa og bogra við að koma sér þaki yfir höfuðið. Ég get ekki sagt að við hjónaleysin höfum tekið stóran þátt í lífsgæðakapphlaupinu. Með herkjum náðum við að nurla fyrir lánveitingu (blönduð myntkarfa að sjálfsögðu, “það var eina vitið”) fyrir 80 m2, 3-ja herbergja kjallaraíbúð í hlíðunum. Tók það sinn tíma og tók á taugarnar að koma því í höfn. Heila meðgöngu takk. Jú, okkur fannst skynsemi í því, þar sem ég var ófrísk, að hætta í þessu leigubrasi og koma okkur, stækkandi fjölskyldu, út úr 50 m2 risíbúð á Laugaveginum, þar sem við sváfum í stofunni og unglingurinn í herberginu. Og stigaopið í miðju eldhúsgólfinu!!  Með tveggja vikna gutta fluttum við í draumaíbúðina. Sæl og ánægð með allt þetta pláss og gott útsýni yfir grasið og skó gangandi vegfarenda utan við eldhúsgluggann okkar.  En til að ná endum saman ákvað ég að byrja að vinna þegar sonurinn var tveggja vikna og dröslaði drengnum með mér í vinnuna dag eftir dag og voru dagarnir mislangir og við tóku brjóstagjafir á víðavangi. En ánægjan með lífið var samt alltaf til staðar. Við áttum hús yfir höfuðið, áttum fyrir mat, allir í sér herbergi og áttum þokkalegasta fjölskyldubíl (á erlendu láni “því það var eina vitið”) sem komst ótrauður vestur á firði án nokkurra vandræða. (annað en gamli bíllinn). En svo dró fyrir sólu. Bankakerfið hrundi. Maðurinn og fyrirvinnan missti vinnuna. Nei Adam var ekki lengi í paradís, og ekki við heldur. Enga vinnu var að fá. Byggingaiðnaðurinn var hruninn til grunna eins og bankakerfið og þá þurfti að leita að vinnu út fyrir landssteinana. Patreksfjörður, Færeyjar, Sviss, Noregur, Kanada, Grænland og meira að segja Himalayafjöll voru inn í myndinni. Við reyndum að taka þessu brosandi og líta svo á að nú opnuðust tækifæri og við tækjum því sem að höndum bæri og myndum leysa það og leysa það vel.  Það var svo í Janúar þegar maðurinn minn hringdi og spurði hvernig mér litist á að flytja til Grænlands???  Ég fraus þar sem ég var að pakka niður jólaskrauti í Blómaval. –haaa sagði ég hikandi, og sá fyrir mér örfáa litríka húskofa í blind byl og hörkufrosti. –Ég veit ekki..... en við nánari athugun var það ekki svo slæmt. Vinnan var fín, launin fín, splunkunýtt 100m2  hús á suður Grænlandi þar sem veður er fínt og margir möguleikar, góðir og slæmir, í stöðunni. ..Reyndar var þetta eini möguleikinn!! Þegar búið var að reikna dæmið afturábak og áfram var alltaf sama útkoman. Það eru meiri líkur á að þrauka í þessum aðstæðum en með fyrirvinnuna atvinnulausa heima og lifa á láglauna húsmóðurinni, þó hún væri í tveimur vinnum. Ákvörðunin var tekin. Kallin flaug út og byrjaði að vinna til reynslu. Allt var þetta jú boðlegt og jákvætt nema að einu leyti. Unglingurinn. Hún var að fara að útskrifast úr grunnskóla, sem var jákvætt. En enginn menntaskóli í boði á landinu græna, sem var neikvætt  Og ekkert annað í stöðunni en að senda hana vestur í MÍ. Sem var reyndar jákvætt því það var alltaf draumur ungu stílkunnar að vera í Menntaskólanum á Ísafirði. Því fylgja auðvitað kostir og gallar. Og stærsti gallinn var  og er sá að langt er á milli okkar og dýrt að fljúga. En engu að síður vorum við öll sammála um að þetta væri besta og jafnframt eina lausnin og allir þokkalega sáttir.  Veturinn hefur verið mjöög langur en gengið þokkalega fyrir sig, með nokkrum uppákomum þó. Og hefur það tekið mjög svo á taugarnar og hefur ekki verið fyrir viðkvæma að standa í svona löguðu. Segi ég og skrifa. En brátt sér fyrir endann á þessum langa vetri sem betur fer. En við lestur fyrirsagna og greina á netmiðlum í dag fær mig næstum til að gráta og knýr mig til að skoða stöðuna sem ég er í í dag.... Hér sit ég, þökk sé þessum "andskotum", langt í burtu frá dóttur minni, fjölskyldu og vinum. Búin að eyða ómældri orku (ásamt manni mínum) í að semja um skuldir á litlu kjallaraholunni með gæðaútsýninu og bíldruslunni sem breyttist úr 1.200,000 kr. bíl í 3-ja milljóna króna jeppa. Án þess að niðurstaða sé komin í málið og guð má vita hvernig endar..(enda ber að meðhöndla okkur sem glæpa og fjárglæframenn, þar sem við berum jú ábyrgð á bankahruninu. Það voru jú við sem tókum þessi erlendu myntkörfu lán,)  Það kostaði að minnsta kosti hálfa milljón að koma heim um jólin svo sundruð fjölskyldan gæti sameinast yfir jólahátíðina. Ég  hef þurft að hafa mikið fyrir því að detta ekki í gamlan vítahring þunglyndis. Og um leið þurft að bera mig vel og stappa stálinu í dótturina sem svo sannarlega hefur þurft að súpa seyðið af þessari fjarveru.  Ég veit að ég er langt frá því að vera illa stödd. Við höfum öll þak yfir höfuðið, við eigum fyrir mat og okkur tókst að smala saman fyrir kærkomnu sameiningar-jólafríi.   Ég veit að margir heima á “litla Rússlandi” eru miklu verr staddir og upplifa sorg og smán við að þurfa að standa í röð eftir mat. Og margir búnir að missa aleiguna og eiga ekki þak yfir höfuðið. Það hafa líka orðið til ansi margar“grasekkjur” úr þessu stríði. Ef ég fengi tíkall fyrir hver skipti sem les eða heyri orðið “grasekkja”  þá væri ég rík í dag...

  Þrátt fyrir allt, er ég þakklát fyrir það sem ég hef....

    ... en fyrst og fremst takk útrásarvíkingar, takk bankamenn, takk ríkisstjórn og sérstakar þakkir fær fjármálaeftirlitið fyrir traust og ötult starf í þágu íslenskrar þjóðar!!              Takk.             

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ísbjörn

Snilldarfærsla hjá þér Heiða eins og vanalega. Þetta er svo satt sem þú skrifar um. Það sýnir líka svo vel baráttuandann í ykkur báðum að fara þessa leið. Ekki að gefast upp! Þið eruð frábær!

Bestu kveðjur að Westan

Sóley V.

Ísbjörn, 13.4.2010 kl. 09:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband