Talað við vegginn

  Það eru margir sem halda að ég sé mjög einmanna og einangruð hérna á Grænlandi. Ég viðurkenni  að svo sé nú stundum. En mjög sjaldan samt. Ég er bara þessi týpa sem er sjálfri mér nóg og finn mér alltaf eitthvað skemmtilegt til dundurs.  Ef ég er ekki að ganga berserksgang í garðinum mínum, skrifa eða að sauma þá er ég að ryksuga, baka eða þrífa. Þrifin reyni ég að gera skemmtileg með því að setja upp hárið og jafnvel set ég á mig varalit ef því er að skipta. Ef ég er alveg í essinu mínu fer ég í kjól, helst litríkan. Ef ekki litríkan , þá að minnsta kosti set ég á mig hálsmen.  Svo er ég líka svo heppin og bý svo vel að eiga einn  lítinn fjörkálf sem ætið sér mér fyrir skemmtiatriðum.  Á hverjum degi er hann með uppá komur. Stundum oft á dag. Allt óæft og óundirbúið. Svo það mætti segja að ég lifi frekar innihaldsríku og spennandi lífi hérna, næstum við endamörk alheimsins.

  Félagsskapurinn er kannski ekki alltaf svo ýkja spennandi. Samræður við þriggja ára soninn, fjörkálfinn, eru ekki beint djúpar. Þær snúast mest um hákarla, hífukrana  og helikopter. Gosa, engisprettu og óskastjörnu. Þó breyttust samræðurnar aðeins eftir að drengurinn byrjaði á leikskólanum. Þá fór hann að segja mér í óspurðum fréttum frá slagsmálum og skemmdarverkum og að hann hafi verið að berja krakkana í hausinn.  Ég auðvitað las honum lífsreglurnar um að svona nokkuð væri bannað og þetta þætti ekki falleg hegðun hjá þriggja ára dreng.  Svo nú eykst spennan dag frá degi. Ég bíð eftir símtali frá leikskólanum Þar sem mér er tilkynnt að syni mínum hafi verið vikið úr skólanum og ég vinsamlegast beðin um að sækja hann hið snarasta ! Segið svo að líf mitt sé ekki spennandi !

 Á meðan að drengurinn er í leikskólanum nýti ég daginn út í ystu æsar. Geri hluti sem ég gat/get ekki  gert á meðan hann er heima. Svo sem eins og að pissa í friði, fara í sturtu, drekka heitt kaffið, kíkja á facebook og svona má lengi telja. Hluti sem venjulegt fólk fær yfirleitt að gera í friði. Og að sjálfsögðu að skrifa og sauma. Ég elska þetta.  Geta allt þetta, í ró og næði. En þá kemur það... enginn að tala við. Engar frásagnir af engisprettum og hákörlum. Engar uppákomur, engin hljóð frá sjónvarpinu (Gosa og félögum til dæmis) þá Kemur facebook sterk inn. Að kíkja á facebook er, fyrir mig,  eins og að skreppa í heimsókn eða á kaffistofuna og fá nýjustu fréttir og slúður. Hver er að baka og hvað. Hver skrapp á Thai koon í hádeginu eða fékk sér Subway í kvöldmatinn.  Hver svaf yfir sig og hver fór á sín hvorri sort af skóm í vinnuna.  Þar get ég líka, að sjálfsögðu, deilt mínu spennandi lífi. Frá nýjasta uppátæki sonarins. Nýjustu laxafréttum eða hvað sem á daga mína hefur drifið. Og stunda ég þetta veggjakrot grimmt.  Þetta þykir fólki auðvitað mis merkilegt og oft fæ ég engin viðbrögð. Þetta er ekki nálægt eins spennandi og  það sem er að gerast á Austurvelli eða matseðillinn á Tapas. Svo ég skil þetta mæta vel. Samt held ég ótrauð áfram, að tala við vegginn, það er jú það eina sem ég hef svona yfir hábjartan daginn.

 Það er alltaf gaman þegar sonurinn kemur heim af leikskólanum og maðurinn kemur heim úr vinnunni. Þá lifnar allt við á ný. Þá er þögnin á facebook ekki eins skerandi, hákarlasögur hljóma eins og sinfonía og hjal mannsin í símtólið eins og fersk hafgolan. Húsið fyllist af lífi á ný. Já þið lásuð rétt. Maðurinn minn kemur sjaldnast inn úr dyrunum öðruvísi en með símtólið á eyranu. Hann er eins og versta kelling þegar að símahjali kemur. Ímyndið ykkur verstu símakjaftakerlingu sem þið þekkið. Margfaldið með tíu, og útkoman er maðurinn minn. Ég þakka fyrir að atvinnurekandinn borgar símreikninginn. Annars kæmumst við sennilegast  aldrei í frí. Ég tek þeim stundum fagnandi þegar hann er ekki í símanum.  Þá er loksins einhver fullorðinn að tala við. Ekki einhver sem svara öllum spurningum mínum með „hákarl“.  Reyndar er það nú svo að stundum tala ég og tala og fæ ekkert svar, ekki einu sinni „hákarl“. Ég er orðin vön því og reyni að láta það ekki fara í taugarnar á mér. Hann er sennilega eins og flestir karlmenn. Stikkorðin, þið munið.  Eitt kvöldið í vikunni lenti ég í mjög svo furðulegu samtali/eintali við manninn minn. Það var nú samt doldið fyndið, verð ég að segja. Ég sat inn í saumaherbergi við saumavélina og hann í stofunni  hinumegin við vegginn, í  þögninni.  Það er alltaf sama sagan, ég tala og tala. Fæ ekkert svar. Þar sem ég er orðin alvön því gefst ég  þó ekki upp og held áfram. Segi honum að ég hafi áhyggjur af syninum í útlenska leikskólanum og hann væri örugglega að lemja börnin til óbóta. Þá hló hann dátt og innilega. Svo þagnaði hann og ég hélt áfram. Þá sagði ég honum að mig vantaði meira selskinn til að sauma úr og færi alveg að verða lens. Þá hló hann enn hærra en áður og sló á lærið á sér. Mér fannst þessi viðbrögð heldur furðuleg og stóð upp til að athuga hvort maðurinn væri hreinlega á einhverju. Þegar vel var að gáð sá ég og heyrði  að hann var  að hlusta á Góði dátinn Svejk  á hljóðsnældu, með heddfónana í eyrunum. Mér var dauð- létt. Hann var þá ekki að tapa sér. Og hann hafði góða og gilda ástæðu fyrir að svara mér ekki.

  Þetta er nú bara eitt dæmi af mörgum, oftar en ekki tala ég fyrir tómum eyrum.  Ég vil ekki meina að það sé vegna þess að ég sé svo leiðinleg. ..eða hann. Hann er bara karlmaður. Sem getur bara gert eitt í einu.  Ef hann er að horfa, hlusta eða bara að hugsa. Heyrir hann ekki. Svo var það einn eftirmiðdag. Strákarnir komnir heim. Og heimilið iðaði af lífi. Gosi kominn í tækið og sonurinn að horfa með öðru og var að veiða hákarl á símasnúruna með hinu. Ég svíf um eins og fiðrildi, búin að baða mig og komin í þægileg heimaföt eftir þrifin og eins og vanalega, ég mala og mala. Gjörsamlega með munnræpu eftir þögn dagsins.  Segi frá hvað ég hafði afrekað að sauma í dag, bakað og hvað væri að frétta af facebook veggnum. Ég enda gjarnan ræpuna á því að spyrja hvað við ættum að hafa í matinn (annað en lax).  Þá uppgötva ég að maðurinn minn, eins og steingerfingur, sat og horfði á sjónvarpið.  Hann heyrir ekki. Hann sér ekki. Hann var kominn til Alsnægtarlands með Gosa og Tuma engisprettu. Ég gat allt eins verið að tala indversku. Hann heyrði kannski bara indversku, þar sem ég stóð á miðju stofugólfinu, í marglitum silki indverjabuxum, með klofið á milli hnjánna, í hvítum bol með handklæðatúrban á hausnum. Til að toppa útlitið var ég með smekklega og vel staðsetta  rauða bólu á miðju enninu. Sem glóði eins og demantur. Ég steinþagnaði. Ekkert gan var af því að halda  áfram að tala.  ...við vegginn.  Ég virti hann fyrir mér, þar sem hann sat sem steinrunninn og starði á sjónvarpið.  Sennilega er meiri hreyfingu að sjá á facebook veggnum. Og þar fæ ég þó stundum viðbrögð....

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Hmmm... hefurðu prufað að hringja í manninn þinn? Nei ég bara spyr...! :D

Þórdís Einarsdóttir, 7.10.2010 kl. 13:29

2 Smámynd: Heiðrún Björk Jóhannsdóttir

Hahahah það er þjóðráð !! :)

Heiðrún Björk Jóhannsdóttir, 7.10.2010 kl. 14:15

3 identicon

Mæli með ráðinu hennar Þórdísar ;)

Skemmtilegur pistill Heiða!

Gréta (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 09:20

4 Smámynd: Sóley Eiríksdóttir

Haha gaman að þessu hjá þér :)

Sóley Eiríksdóttir, 11.10.2010 kl. 18:06

5 Smámynd: Ísbjörn

Haha, frábær pistill. Það er ekki oft sem ég hlæ upphátt, alein með sjálfri mér við tölvuna en það gerðist nú bara nokkrum sinnum við þennan lestur. Þú ert frábær! Endilega haltu áfram að skrifa!

Ísbjörn, 12.10.2010 kl. 09:15

6 identicon

Þetta er frábær færsla hjá þér, Hvenær kemur bókin út, þú ert algjör snillingur :)

Auðbjörg (IP-tala skráð) 12.10.2010 kl. 14:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband