Rokksúpa

  Hvernig líst þér á að hafa kjötsúpu í matinn í kvöld? Spyr minn heittelskaði eldsnemma í morgun  og dreif sig á fætur og gerði sig kláran í að fara að versla í matinn. Bara vel svara ég um hæl, dauðfegin að þurfa ekki að velta því meira fyrir mér. Ég er nefnilega haldin kvöldmats kvíðaröskun, sem lýsir sér þannig að ég svitna og skelf og fæ kvíðahnút í magann þegar þarf að taka ákvörðun um hvað á að vera í kvöldmatinn.Við erum ólík að þessu leyti, því hann elskar að elda mat og sér því að mestu leyti um eldamennskuna á heimilinu og stendur sig vel í því hlutverki. Dagurinn í dag var engin undantekning. Hann skaust í búðina á meðan húsfreyjan á heimilinu sinnti öðrum húsverkum og kom einkasyninum út i vagn því nú skyldi nýta sólina og blíðuna. Eftir að hafa skellt í nokkrar laugardags-lummur arkaði húsmóðirin af stað út í sólina með einkasoninn í vagninum. Þar brussaðist hún í gegnum skafla og ruðninga og lét ekkert stoppa sig. Hún ætlaði sko sannarlega að njóta hverrar mínútu í þessu blíðskapaveðri hugsandi vestur á firði þar sem stórfjölskyldan býr, í veðurbörðum húsum sínum í arfavitlausu veðri, snjóflóðahættu og vosbúð. Varla hundi út sigandi og allar samgöngur í lamasessi. Vesalings fólkið að búa við þetta.. Lögregluþjónar veðurtepptir á Hólmavík og Rokksúpunni aflýst! Nei við megum þakka fyrir að búa ekki í þessari roksúpu!!. Í þessum þönkum gleymdi húsmóðirin sér og þræddi hverja einustu götu í hverfinu og sumar götur tvisvar. Á meðan saxaði húsfaðirinn niður kartöflur og grænmeti af alúð og natni og setti kjötið í pott fullur tilhlökkunar að bragða á þessari dýrindis kjötsúpu. Með svuntuna um hálsinn og sleif í hendi hrærði hann í pottunum og dillaði sér og raulaði. Áfram hélt húsmóðirin að drekka í sig sólina og gleymdi sér alveg í veðurþönkunum. Fyrr en varði stóð hún á tröppunum eftir langan göngutúr móð og másandi og langt frá því tilbúin að fara inn. Rjóð í vöngum greip hún í skófluna og byrjaði að moka og andskotast í tröppunum. Með valdi, réðist hún á þjappaðan snjóinn og klakabunkann og þeytti út á götu, svo manísk og grimm, að fólk sem átti leið hjá, átti fótum sínum fjör að launa. Eftir dágóða stund hrundi hún inn úr dyrunum með reytt hárið og strákúst í hendi ,eftir að hafa sópað í burtu restinni af snjónum, í þröngum power stretch  gallanum lítandi út eins og Ossy Osborn að munda míkrófóninn.... Er ekki rokksúpan að verða  tilbúin??

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arndís Baldursdóttir

Þetta er aldeilis frábær pistill um helgina þína, já þú verður rithöfundur þegar þú verður stór Heiða mín, ég kaupi allavega fyrstu bókina, og bið um hana áritaða.

Kveðja frá frúnni á Klöpp

Arndís Baldursdóttir, 4.3.2008 kl. 08:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband