Grænlenskar grundir

Að vakna hér í Nanortalik á hverjum morgni og fá að upplifa kyrrðina og fegurðina eru forréttindi. Hér líður tíminn hægar enn annarsstaðar gengur og gerist. Maður bókstaflega hefur allan tíman í veröldinni til að gera allt í veröldinni, en samt nægur tími eftir. Hér eru allir eitthvað svo vingjarnlegir og glaðlegir. Þegar maður gengur í gegnum þorpið heilsa flest allir með bros á vör eða í það minnsta kinka kolli. Og er því nóg að gera í að heilsa og brosa á móti, því hér er eins og alltaf sé þjóðhátíðardagurinn. Fullur bær af brosandi og glöðu fólki, þó flestir ef ekki allir hafa einhverja sorgar sögu að geyma í sínu hjarta.  Það kom á óvart hvað bærinn er stór og hér eru svo margar götur að nýbúi eins og ég getur alveg tapað áttum og hreinlega villst. Húsin eru misjöfn að gerð, lögum og litum eins og þau eru mörg. Öll mjög falleg og sjarmerandi á sinn hátt þó ekki fari mikið fyrir görðum og gróðri. Gamli bærinn minnir óneitanlega á neðsta kaupstað á Ísafirði, lágreist hús með litlum gluggum niðri við sjóinn. En stórir og tignarlegir ísjakarnir minna mig á að ég er stödd á Grænlandi og hætti því að leita að Magga Hauks og ilminum úr eldhúsinu í tjöruhúsinu. Búðirnar hérna eru í einu orði sagt frábærar! Hér er að finna típíska túristabúð með skinni og skinnvörum og ýmsum grænlenskum minjagripum, sportbúð, tvær stórar matvörubúðir (Bónus og Krónan) og að ógleymdum Aja og Brinu. Aja selur föt, gjafavöru, blautbúninga og sælgæti og Brina selur nánast allt milli himins og jarðar. Allt frá brjóstsykri í stykkjatali að reiðhjólum, nærföt, barnaföt, snyrtivörur, brúðarkjóla, gólfmottur og gerviblóm. Brina er búðin! Brina selur allt!  Hér skortir ekkert og lítils að sakna að heiman fyrir utan fjölskyldu og vina. Við höfum þó eignast góða vini og nágranna svo okkur þarf ekki að leiðast. Og svo eru hér tveir málarar frá Íslandi sem eru að mála húsin í hverfinu okkar og við hittumst á hverjum degi og borðum saman í fína nýja húsinu mínu. Í nýja fína hverfinu mínu.

 Við höfum að sjálfsögðu reynt að hafa hlutina sem heimilislegasta og kostur er. Með því að “skýra” hina ýmsu bæjarhluta eftir hverfum og götum heima á íslandi eða öðrum þekktum nöfnum. Hér má finna Fellin, Neðsta og Ægissíðuna sem málararnir búa við og svona má lengi telja. Reyndar er ein gata hér í hverfinu sem heitir Ísafjarðardjúp og óþarfi að skýra það upp á nýtt. Síðast en ekki síst má finna Arnarnesið þar sem ég bý, fína hverfið, þar sem hafnarstjórinn, lögreglustjórinn, lögreglumaðurinn, bæjartæknifræðingurinn (Lúther) og íþróttaálfurinn búa. En þar sem hverfið er staðsett upp á hæð, undir lítilli fjallshlíð og hefur ekki götunöfn, eldur númer kýs ég að kalla það Hollywood Hills. Og hvað er betra en að vera húsmóðir í Hollywood Hills.

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband