Sir Paul.............

Það reynist oft erfitt að vera við eina fjölina negldur.........
mbl.is Með þrjár í takinu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttan VIÐ tölvuna

   

Eins og fram hefur komið, þá er undirrituð ekki sú flinkasta í tölvubransanum enda algjör nýliði í þeim efnum. Loks þegar baráttuni UM tölvuna var lokið, var loks hægt að sitja í rólegheitum við skjáinn, senda póst , sörfa á netinu, blogga  eða spjalla á MSN án þess að einkadóttirin stæði yfir manni og andaði ofan í háalsmálið milli þess sem hún ræki á eftir manni.

 Nei, nú eigum við heimilistölvan í leynilegu ástarsambandi, og reynum að eyða quality time saman eins oft og við getum.  Og þó ég segi sjálf frá hef ég bætt mig allvel í kunnáttunni og óhrædd sest ég og hræri og brasa án þess að óttast að tölvan springi eða ég eiðilleggi hana á einhvern hátt. Nú blogga ég eins brjálæðingur og hingað til  ekki þótt það tiltökumál. Þangað til ég ætlaði að fara að færa mig upp á skaftið og setja galvösk, myndband með texta á síðuna mína. Eftir miklar vangaveltur og pælingar taldi ég víst að nú væru mér allir vegir færir og allt klappað og klárt. Allt kom fyrir ekki, þarna var ekkert myndband, bara aumur og tilgangslaus texti... Ekki þótti mér þetta gott fyrir sjálfstraustið og ekki á bætandi eftir MSN hópsamræðurnar sem ég átti við vinkonur mínar tvær í dag. Þær báðar alveg æðislega klárar, búnar að vinna við tölvu síðan löngu fyrir aldamót og hafa örugglega fengið hærra en 3 í vélritun á sínum tíma. En ég lét mig hafa það og reyndi eins og ég gat að halda í við þær, en þegar ég var búin að skrifa það sem ég vildi segja, voru þær farnar að tala um eitthvað allt annað og svarið mitt kom eins og skrattinn úr “sauðárkróknum”. Ekki bætti úr skák þegar mamma mætti á MSN-ið líka, þá duttu mér nú allar dauðar! Nú varð ég að skíta í lófana og bretta upp handleggina!! Á endanum var ég farin að skrifa eins og unglingur, það ýmist vantaði aftaná eða inn í miðjuna, gegt skettlett , og ég hreinlega hljómaði eins og smáauglýsing í DV.- Þið kom te í dráb á morg. Ég sæk ykk  og við plan dan ferð. Fráb. Hven bún vinn? Ok sjást...... Kveðj  Heiða

Hugi í hláturskasti

Það þarf ekki að vera fyndið til að vera fyndið...

En þetta fannst honum fyndið.........


Diskóstemning hjá Skó-fólkinu...

Hann á ekki langt að sækja skóáhugann einkasonurinn kæri, þar sem móðirin á ekki undir 70 pör af skóm og pabbinn og systirin gefa ekkert eftir í þeim efnum. Og á svo skóríku heimili, þarf auðvitað að gera viðeigandi ráðstafanir til að halda utan um skófjölda heimilisfólksins og koma öllu haganlega fyrir í þar tilgerðum skóhillum. Í þessu tilfelli bókahillum, því hvergi má finna svo stóra og rúmgóða skóhillu undir alla dýrðina. Eins og í þjóðfélaginu, finnst stéttaskipting í skó-landi.  Vinnu, veiði og fjallaskór ásamt stígvélunum er komið fyrir inn í lokuðum skáp frammi á gangi á meðan götu og strigaskór af ýmsu tagi fá að vera í snyrtilegri röð í ríkis IKEA skóhillum í forstofunni svo auðvelt sé að velja skófatnað eftir veðri, færð og tilefni á fljótlegan máta.  Svo er það "fína" skóhillan eða öllu heldur bókahillan, sem fær að geyma skótau af betri sortinni og er staðsett á holinu svo fínu skórnir fái að njóta sín og ekkert skópar verði útundan hvað notkun varðar, svo fá að fljóta með nokkur gömul tísku slys svona upp á grínið. Þannig að allir skór eiga sinn stað og sína "stétt" í öllu skipulaginu.

 Nú þegar litli kall er kominn á fullt í göngugrindinni er honum ekkert óviðkomandi og er fína bóka skóhillan engin undantekning. Hann þeysist um á diskó göngugrindinni sinni með blikkandi ljós og sýrenur. Úr fatahenginu í geisladiskahilluna og úr geisladiskahillunni í prentarann og frá prentaranum í skóhilluna. Þar bardúsar hann tímunum saman með sænsku klossana og háu hælana. En mest spennandi eru þó gull glimmer skórnir og velur hann þá vandlega úr öllu skóhafinu, og smakkar og japplar á þeim eins og öllu sem hönd á festir. Og fyrr en varir er drengurinn orðinn eins og glimmer diskókúla á miðjum jólaballa tímanum..

og jóla diskó stemningin heldur áfram....

í gegnum meltingarfærin...

og endar í kúkableiunni!!

 

 

 

       


Réttu græjurnar

Unglingar í dag eru svo frábærir. Ég er svo glöð að eiga einn slíkan, unglingsstúlkuna, og henni fylgja svo margir aðrir unglingar.
Svo heppin er ég, að við mæðgur erum frekar góðar vinkonur og þess vegna fæ ég að kynnast öllum hennar vinum nær og fjær, háum sem lágum, strákum og stelpum. Ég hef tekið eftir því að strákarnir gefa stelpunm ekkert eftir í speglanotkun og spekúlasjónum með útlitið. Þegar ég var unglingur (ekki alls fyrir löngu) mátti halda að strákarnir ættu ekki spegil!! En það er af sem áður var. Ég hélt til dæmis að dóttir mín væri ein um að þjást af TANÓREXÍU, sem lýsir sé þannig að hún fer ekki út úr húsi fyrr en hún hefur makað á sig nokkrum umferðum af brúnkukremi eða brúnkuklút og smá dass af sólarpúðri ofan á það, eftir kúnstarinnar reglum svo hún lítur út eins og sacher terta. Og ekki þykir henni verra ef hún fær leyfi til að fara í ljós öðru hvoru. Öðru nær, strákarnir eru lítið skárri, súkkulaði brúnir og sætir eins og kandís! og klæddir eins og lög gera ráð fyrir, Diesel gallabuxur og hettupeysa er málið, og bannað að fara í úlpu utan yfir. Það er kalt að vera töffari!
Svo er líka eins gott að hafa herdúið í lagi og ekki farið út fyrir hússins dyr fyrr en öll hár liggja á hárréttum stað með þar til gerðum efnum og græjum.
Dagurinn í dag var engin undantekning hvað pæju og gæjamúnderingu varðar. Áður en farið var á setningu skíðaviku var að sjálfsögðu góðum tíma varið fyrir framan spegilinn og öllum brögðum beitt til að útlitið væri í lagi, og svo var þrammað út í rokið...
Eftir smá rölt í bænum með viðkomu í Hamaraborg komu þau í kvöldmat, litlu fiðrildin. Sátu þau við eldhúsborðið, svo brún sæt og sælleg með hárið svo veðurbarið og úfið að þau minntu helst á Tinu Turner á áttunda áratgnum. Þá sagði félaginn, -hey veistu hvað ég var heppinn?
-nei svara ég um hæl.
-Ég fann þúsundkall í Hamraborg.
-Þú heppinn segi ég og brosi.
- Og hvað helduru að hann hafi keypt fyrir peninginn? segir unglingsdóttirin.
-Bland í poka ?? Páskaegg?? spyr ég af kappi....
Í þeim töluðu orðum dregur hann WELLAFLEX hárfroðu upp úr vasanum á hettupeysunni og segir: maður verður að eiga réttu græjurnar............



Sól sól skín á mig...

Vorið er komið, það leynir sér ekki!

 

Skvísan fór í hælana í gær og strigaskóna í dag........

Cool


Sonur minn er hættulega mikið krútt

  Hvernig getur svona lítið krúttlegt og  fallegt barn skapað svona mikla hættu? Sem fyrr mættum við mæðgin hress og glöð í bragði í vinnuna okkar í dag. Tilbúin til að mála bæinn rauðan og hreinlega skilja eftir okkur sviðna jörð ef því væri að skipta! Verkefni dagsins var að gera Evu gluggann stórglæsilegan og sumarlegan, og var mamman búin að leggja á sig mikla vinnu við undirbúning svo að allt yrði eins og best yrði á kosið. Búin að yfirdekkja stóla, sauma gardínur og láta mála, svo þá var lítið eftir nema að teppaleggja og stilla svo öllu heila klabbinu upp eftir kúnstarinnar reglum og sétteringum. Á meðan mamman bardúsaði við teppalögnina í búðarglugganum (á miðjum Laugaveginum) sat sá stutti á leikteppi með dótið sitt, í seilingarfjarlægð frá mömmunni, rétt innan við glerið og fylgdist með umferð akandi og gangandi vegfarenda milli þess sem hann nagaði dótið sitt og saug. Vakti þetta að sjálfsögðu mikla eftirtekt og fólk fór að safnast saman í hópum fyrir utan gluggann að geifla sig og gretta, sem vakti að sjálfsögðu mikla kátínu hjá litla 6 mánaða “vinnumanninum”.Eins og lög gera ráð fyrir fá allir vinnumenn sinn matar og kaffitíma og hann að sjálfsögðu engin undantekning. Á meðan litla krúttið lá í huggulegheitum á brjósti mömmunnar kom fólk inn í umvörpum að spyrja hvað hafi orðið af litla barninu? Glugginn hafi aldrei verið eins flottur..  Eftir mjaltar tíma og smá blund í vagninum mætti litli kútur aftur til vinnu sinnar í glugganum, brosandi út að eyrum með tönnurnar sínar tvær og hárbrúskinn út í loftið. Og gerði sér ekki nokkra grein fyrir að allir sem löbbuðu framhjá snarstoppuðu til að líta á þessa litlu “lifandi gínu” í glugganum. Og ekki nóg með það, heldur setti hann alla bílstjóra sem áttu leið hjá alveg út af laginu og hvað eftir annað mátti engu muna að menn /konur keyrðu aftan á næsta bíl, ljósastaur eða gangandi vegfaranda................

Vorboðinn ljúfi með Sir David

Já það getur svo sannarlega verið flókið að vera í sambúð með "fólki út í bæ", það þekki ég af eigin raun. Ég bjó nú á sínum tíma með miðbænum eins og hann leggur sig! Skinkan í samlokunni Barinn/Oliver. Vaknaði um miðjar nætur við dúffið á skemmtistöðunum. Og þegar ég heyrði í götusópurunum um kl 6 að morgni vissi ég að vorið var komið. Ég á varla orð yfir hversu fegin ég er að vera flutt úr skarkalanum í hlíðarnar, þó það hafi verið þægilegt og stundum rómantískt , á sinn hátt að búa í 101. Nú nýt ég þess að heyra fuglana syngja við píanó undirleik af efri hæðinni og rölta í bæinn og heimsækja fyrrum sambýlingana, miðbæjar rotturnar, sem silast eftir Laugaveginum eins og grátt rigningaský eða litríkar sápukúlur. Dansa mökunar dans og daðra eins og í dýralífsmynd með sir David Attenborough  Nú bíð ég spent eftir að aspirnar í garðinum fari að laufgast svo ég geti fylgst með mökunardansi fuglanna í trjánum.

  Þegar öllu er á botninn hvolft bý ég enn í dýralífsmynd með sir David, nema nýjar persónur og leikendur og  tónlistin er öðruvísi…

 

Næturbúnaður

Þeir eru ófáir hlutirnir sem nauðsynlega þurfa að fylgja manni í háttinn á hverju kvöldi, þá meina ég hluti, ekki fólk eins og minn heittelskaða eða einkasoninn. Hluti eins og t.d bók eða vekjaraklukku og þess háttar. Ég var t.d á leið í háttinn og fór að smala saman símanum:, svo ég geti nú öruugglega fylgst með hvað tímanum líður og hvenær einkasyninum dettur í hug að nærast, nú eða ef einhver álpast til að hringja í mig eldsnemma í fyrramálið. Vatnsglas:, bæði fyrir mig og einkasoninn ef þorsta ber á góma. Varasalva:, svo varirnar verði silkimjúkar og glansandi. 2-3 duddur, allur er varinn góður, ekki nenni ég að skríða á fjórum fótum í svarta myrkri, ef duddan dettur í gólfið. “Snýti-belg”:,því litli einkasonurinn er eitthvað að kvefast og er með stíflað nef. Handáburð:, því hendurnar eru eins og eyðimörk eftir verk dagsins. Nú að sjálfsögðu bók og lesljós, því ekki les bókin sig sjálf. Að ógleymdri minnisbókinni:, ef  hugurinn fer á flakk og frábærar hugmyndir skjóta upp kollinum, þá er eins gott að festa þær á blað áður en þær hverfa í mjólkurþokuna miklu. Þegar allt var komið á sinn stað, ég komin í náttfötin og tilbúin að skríða uppí, þá rann það upp fyrir mér... Þetta er orðin spurning um að sofa á náttborðinu og geyma dótið í rúminu......

Hlynsskógar

Hlunkurinn kom rúllandi niður brekkuna.........                       Svona á ævisagan mín að byrja sagði Hlynur eitt kvöldið þegar ég hafði lesið fyrir hann eina söguna mína, og ég tekið loforð um að skrifa ævisöguna hans einhvern tíma. Þó ævi hans hafi verið töluvert styttri en við öll vildum óska þá er örugglega til efni í heilan doðrant um þennan frábæra dreng. Skemmtidoðrant! ...Með bullívafi...  Þó sagan endi sorglega, þá er ekki annað hægt en að hlæja sig máttlausan yfir vitleysunni og bullinu sem valt upp úr honum, og hann kallaði fram í okkur hinum. Meira að segja ísskápar urðu hlægilegir og öðluðust nýja merkingu. Nýir karakterar fæddust, íslenskir sem erlendir, sagan um Gunther, þýski þjóðverjinn sem heiðraði okkur íslendinga með nærveru sinni. Strumpaópalið, c-vítamínið, kínverskan og púrtvínið. Endalaus uppspretta af næringu fyrir sálina.. oh hvað ég sakna hans. Ef ég ætti eitt tré fyrir hvert gleði og sorgar tár sem hann hefur framkallað, ætti ég marga skóga...                                                        ...Skóga sem ég myndi kalla Hlynsskóga.....                                                                                          Hlynur, til hamingju með afmælið í dag.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband