Rassgat, rófa og rúsína

  Hvaðan í ósköpunum kemur þetta..? Rúsína og rófa, við erum að tala um litlu krúttlegu börnin! Eru þetta kannski húsmæðurnar sem hafa fundið upp á þessum skrýtnu lýsingarorðum? Ekki hafa þær nú leitað út fyrir eldhúsveggina frekar en fyrri daginn, heldur inn í eldhússkápana af öllum stöðum! “Æ litla rófan” og “ooo hún er svo mikil rúsína”.. Meira að segja ófæddu börnin finnum við í eldhússkápunum, “litla grjónið er farið að sparka og sparka”. Hvar endar þetta?? Rúsínan er ekki það fallegasta sem finna má í skápunum, lítið, brúnt, krumpað og klístrað fyrirbæri þó það bragðist kannski ágætlega, og rófan gróf klossuð og ljót á litinn. Ekki skánaði það þegar húsmæðurnar brugðu sér á salernið eftir allt rúsínuátið..... Neeeh pabbarnir hljóta að hafa fundið upp á þessu ...... Ég ætla fyrir alla muni að fara að venja mig af því að kalla barnið mitt þessum óvenjulegu orðum og fara að finna upp á einhverju fallegra sem hæfir fallegu og yndislegu barni!  Er farin að knúsa litla engilinn minn.....      

Rokksúpa

  Hvernig líst þér á að hafa kjötsúpu í matinn í kvöld? Spyr minn heittelskaði eldsnemma í morgun  og dreif sig á fætur og gerði sig kláran í að fara að versla í matinn. Bara vel svara ég um hæl, dauðfegin að þurfa ekki að velta því meira fyrir mér. Ég er nefnilega haldin kvöldmats kvíðaröskun, sem lýsir sér þannig að ég svitna og skelf og fæ kvíðahnút í magann þegar þarf að taka ákvörðun um hvað á að vera í kvöldmatinn.Við erum ólík að þessu leyti, því hann elskar að elda mat og sér því að mestu leyti um eldamennskuna á heimilinu og stendur sig vel í því hlutverki. Dagurinn í dag var engin undantekning. Hann skaust í búðina á meðan húsfreyjan á heimilinu sinnti öðrum húsverkum og kom einkasyninum út i vagn því nú skyldi nýta sólina og blíðuna. Eftir að hafa skellt í nokkrar laugardags-lummur arkaði húsmóðirin af stað út í sólina með einkasoninn í vagninum. Þar brussaðist hún í gegnum skafla og ruðninga og lét ekkert stoppa sig. Hún ætlaði sko sannarlega að njóta hverrar mínútu í þessu blíðskapaveðri hugsandi vestur á firði þar sem stórfjölskyldan býr, í veðurbörðum húsum sínum í arfavitlausu veðri, snjóflóðahættu og vosbúð. Varla hundi út sigandi og allar samgöngur í lamasessi. Vesalings fólkið að búa við þetta.. Lögregluþjónar veðurtepptir á Hólmavík og Rokksúpunni aflýst! Nei við megum þakka fyrir að búa ekki í þessari roksúpu!!. Í þessum þönkum gleymdi húsmóðirin sér og þræddi hverja einustu götu í hverfinu og sumar götur tvisvar. Á meðan saxaði húsfaðirinn niður kartöflur og grænmeti af alúð og natni og setti kjötið í pott fullur tilhlökkunar að bragða á þessari dýrindis kjötsúpu. Með svuntuna um hálsinn og sleif í hendi hrærði hann í pottunum og dillaði sér og raulaði. Áfram hélt húsmóðirin að drekka í sig sólina og gleymdi sér alveg í veðurþönkunum. Fyrr en varði stóð hún á tröppunum eftir langan göngutúr móð og másandi og langt frá því tilbúin að fara inn. Rjóð í vöngum greip hún í skófluna og byrjaði að moka og andskotast í tröppunum. Með valdi, réðist hún á þjappaðan snjóinn og klakabunkann og þeytti út á götu, svo manísk og grimm, að fólk sem átti leið hjá, átti fótum sínum fjör að launa. Eftir dágóða stund hrundi hún inn úr dyrunum með reytt hárið og strákúst í hendi ,eftir að hafa sópað í burtu restinni af snjónum, í þröngum power stretch  gallanum lítandi út eins og Ossy Osborn að munda míkrófóninn.... Er ekki rokksúpan að verða  tilbúin??

Mjólkurþoka

Yndislegur einkasonurinn fékk í fyrsta skipti að borða í dag, Þó enn vanti 2 vikur í að hann verði 6 mánaða. Eins og sönnum karlmanni sæmir, er hann mjög áhugasamur um brjóst og dafnar vel eftir því. Annars hefur borið á því undanfarna daga að áhuginn hefur aukist svo til muna að hann helst vill liggja á, á 1 1/2 tíma fresti sem er alls ekki að gera sig og langt frá hans daglegu hegðun og rútínu.Var þetta farið að setja hressilega mark sitt á konuna með brjóstin sem hefur alvarlega þjáðst af hinni svokölluðu mjólkurþoku. Svo gleymin var hún að hún mátti þakka fyrir að rata heim til sín ef hún fór of lagt að heiman, átti í erfiðleikum að muna hvaða dagur var og hvar hún lagði frá sér hlutina. Bókstaflega stúpit!! Svo langt gekk það að einn daginn, þegar hún var að labba heim úr stuttri vinnuferð, og gekk framhjá svona hraðamæli sem segir ökumönnum hve hratt hann ekur og blikkar ljósi ef ekið er of hratt, og sýndi þessi hraðamælir 35km , flaug þá í gegnum kollinn, á ljóshraða, “vá hvað ég labba hratt!!”.   Hingað og ekki lengra! Nú þarf að gera eitthvað í málunum!. Med det samma arkaði hún út í búð og keypti graut handa drengnum því hann hlyti bara að vera svangur. Eftir kvöldbaðið og sopa úr báðum brjóstum fékk hann loksins eitthvað almennilegt að borða. Maís graut með dass að stoðmjólk og honum skolað niður með vatni úr stútkönnu. Þetta þótti honum ansi gott og borðaði með bestu lyst. Eftir þessa dýrindis máltíð þótti tilvalið að leggjast á meltuna í sófanum eða öllu heldur setjast og horfa á bandið hans Bubba míns, innpakkaður í sæng og huggulegheit. Ekki hafði hann setið lengi þegar augnlokin voru farin að síga og fyrr en varði sat hann saman brotinn með andlitið ofan á hnén á bólakaf í sænginni. Þreyttur, saddur og sæll var hann svo lagður í rúmið sitt, og ekki rumskað síðan. Þegar öllu er á botninn hvolft er það bara mamman sem er með brjóstin á heilanum. Sonurinn vill bara fá að borða!! Góða nótt.

Snert af bráðkveddu...

Ótrúlegt hvað þessi flensa er búin að vaða svo gjörsamlega yfir mann og annan þessa síðustu og verstu að heilsuhraustustu og frískustu menn hafa steinlegið í valnum sem aldrei fyrr. Ekki það að ég svo sem stend enn ,svo krisp og lekker og ósnortin af blessaðri flensunni. En það sama er ekki að segja af elskhuga mínum, sambýlismanni og barnsföður (einn og sami maðurinn þó) hann gjörsamlega steinlá svo ekki var um villst. Svo svaðalega að það tók hann viku að hrista þetta af sér. Ég skundaði þó til vinnu á minn fjölmenna og fjölbreytta vinnustað og skildi sjúklinginn eftir heima án allrar þjónustu og aðhlynningar þar sem ég mátti til með að koma mínum verkefnum í gang og ljúka sem allra fyrst. Á spjalli mínu við samstarfsfólk mitt þá vikuna kom í ljós að nánast annar hver maður í tvöhundruð og eitthvað manna fyrirtæki var veikur svo starfsemin var í hálfgerðu lamasessi. Í hvert skipti sem ég nefndi það á nafn við samstarfs(eigin)konur að minn heittelskaði lægi fárveikur heima ranghvolfdu þær augunum og sögðu ooh hvað þessir karlmenn verða alltaf svo svakalega dramatískt veikir eins og þeir liggi hreinlega fyrir dauðanum .. Ég játa því, annarshugar, og hringi í málarann og múrarann og bið um að láta mála einn vegg og múra annan. Jú sjálfsagt Heiða mín ég redda þessu hið snarasta segir múrarinn. Kem við fyrsta tækifæri! Svo líður og bíður og aldrei kemur múrarinn. Svo ég hringi, þar sem yfirmaður minn er óþreyjufullur farinn að pikka í axlirnar á mér, og spyr múrarann hvernig málin standa, ertu nokkuð búinn að gleyma mér? Dei dei ég er bara svo svakalega bikið veikur að ég bá bara ekki hreyfa big.Alveg svakalega slæbur. Æ karl-anginn láttu þér bara batna og ég sé þig þegar þú ert orðinn frískur. Já ég voda að ég fari dú að hressast. Með það kvöddumst við og ég hringi í málarann sem ekki hafði heldur látið sjá sig á réttum tíma.Þá rifjast upp fyrir mér að trúlega hafa samstarfskonur mínar rétt fyrir sér, karlmenn verða alltaf alveg svakalega alvarlega veikir þó aðeins sé verið að tala um smá hor í nös eða nokkrar kommur.En allt kom fyrir ekki, málarinn lá fárveikur heima nær dauða en lífi, svo illa staddur að hann var hreinlega kominn með snert af bráðkveddu!!

 


Skrifandi byrjandi

Já fínt, sendu mér póst, annars gleymi ég þessu... Alltaf sama viðhvæðið hjá þessum snillingum sem sitja meira og minna við tölvuna alla daga. Ég þessi tölvu-wonder woman (not) sný mér undan og klóra mér í höfðinu og spyr mig... Á ég að senda flöskuskeyti eða bréfdúfu...??  Frábært að standa frammi fyrir því á gamalsaldri en þó kornung, að kunna ekkert á tölvu. Vera háð manninum sínum eða unglingsdóttur ef eitthvað þarf að gera. Þegar ég segi að kunna ekkert, þá meina ég ekkert, fyrir utan kanski að kunna að fara inn á mbl.is eða google. Ég er nýbúin að læra að senda tölvupóst FOR KRÆING ÁT LÁT. Fyrir vikið er ég ógurlega montin þegar upp kemur sú staða, að ég þarf að senda póst,þá segi ég yfirleitt hátt og snjallt svo allir heyri "ég sendi þér tölvupóst".     Ég lenti í því um daginn þegar ég var að senda póst, að ég  rak mig í einhvern takka á lyklaborðinu sem gerði það að verkum að letrið stækkaði um helming og gott betur en það og ég ein heima og kunni auðvitað ekki að laga það. Og þar sem ég var svo gott sem hálfnuð með bréfið, í tímaþröng og varð að senda það sem allra allra fyrst var ekkert annað að gera en að senda fjandans bréfið skrifað á mjög kurteisan hátt, með risaletri ásmt útskýringu til viðtakanda af hverju letrið væri svona stórt, ég væri ekki að öskra eða að berja á takkana á borðinu. Frekar hvimleitt þar sem ég var að biðja bláókunnugan mann um aðsoð vegna vinnu minnar og það sem verra var, ég þurfti að hitta hann daginn eftir!

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband