Grænlensku klaufabárðarnir

Það kemur fyrir að syni mínum leiðist svolítið hér á landinu græna. Kannski skiljanlegt þar sem hann er enn heima vinnandi með móður sinni og bíður eftir að komast á leikskólann hér í bæ. Flestir dagar eru eins og teknir snemma. Ekki er alltaf veður til að fara út að leika sér og þá er ekkert annað í stöðunni en að hanga bara inni.  Fljótlega upp úr kl 10 á morgnana er hann búinn að fara tvær til þrjár umferðir yfir dótið sitt í herberginu. Búinn að sturta og losa, tína saman, raða og færa allt það dót sem til er á heimilinu. Þá er farið í það að hoppa smá í sófanum eða mömmu rúmi. Henda smá dóti út um gluggana og jafnvel vera við það að detta sjálfur út um gluggann. Þá er alltaf jafn gaman að trufla mömmu við það sem hún er að gera. Enda á hún að vera tilbúin að leika og gera hluti þegar hentar. Að búa um rúm, baka, þrífa og sauma getur beðið. Hvað þá tölvuhangs eða símtal er alveg út úr kortinu. Það bjargar heilmiklu þegar hann fær lánað dót hjá nágrannanum eða  það koma sendingar að heiman með nýju dóti, þá fær maður vinnufrið í að minnsta kosti klukkutíma. En það gerist sárasjaldan, svo þá eru góð ráð dýr. Ég hef ansi oft freistast til að setja disk í tækið til að fá smá frið við það sem ég er að bauka því ekki dugir miðdegislúrinn til allra hluta. Þá fær sonurinn þá að velja á milli nokkurra mynda. Hundalíf, Madagaskar, Bubbi byggir og fleiri koma oft við sögu en í mestu uppáhaldi er gamla góða ET og Klaufabárðarnir 2. Hans upplifun af ET  er sennilega önnur en okkar fullorðinna, því hann biður um að fá að horfa á “gabaga” (skjaldböku) þegar ET verður fyrir valinu.  Skjaldbakan sem týndi pabba sínum. Sem hefst á dramatískan hátt þar sem geimfar yfirgefur jörðina og skilur ET eftir og hópur karlmanna með vasaljós í myrkrinu  leita að aumingja ET.  Svo hlær hann frá dýpstu hjarta rótum þegar skjaldbakan drekkur bjór, verður full og dettur á bossann. Innlifunin nær svo hámarki í lokin þegar strákurinn kveður skjaldbökuna með tárin í augunum, þá fær hann gífurlega þörf fyrir að “klúsa gabaga” (knúsa skjaldbökuna). Þegar rökkva tekur fer minn maður á stúfana kallar “ÍTÍ HÓ HÓOÓ” (ET phone home) og leitar að skjaldbökunni undir sófa, bakvið hurð, út um gluggann eða úti á stétt logandi ljósi –vasaljósi.

  Hinsvegar sér hann Klaufabárðana sem ákaflega röggsama, duglega og mjööög handlagna viðgerðarmenn. Stjarfur situr hann og óspart hvetur áfram og býsnast í senn og áhyggjusvipinn má sjá og jafnvel heyra langar leiðir. Nú er svo komið að hann má ekki kústskaft sjá þá er hann farinn að banka í loftið eins og “kluvaborðrnir”.  Ef  slökkt er á sjónvarpinu slær hann fast ofan á það áhyggjufullur á svip og tilkynnir að sjónvarpið sé ónýtt.  Sækir mig og saman lögum við, klaufabárðarnir á heimilinu, sjónvarpið með einu handtaki. Þá horfir hann á mig ábúðafullur á svip og segir “kluvaborða mig” þá tökumst við í hendur, leggjum saman olnbogana og sláum niður handleggnum, eins og klaufabárðarnir. 

  Það er eitthvað sem segir mér að drengurinn horfi kannski of oft á sjónverðið, en hver segir að það sé alfarið af hinu slæma??

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ísbjörn

Til hamingju með nýja færslu sem er alveg frábær, eins og við er að búast frá þér! Það verður örugglega spennandi fyrir ykkur bæði þegar Hugi kemst á leikskóla. Gangi ykkur vel!

Kv Sóley V.

Ísbjörn, 11.3.2010 kl. 12:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband