Utan þjónustusvæðis

   Já stundum getur heilinn í manni verið utan þjónustusvæðis og ekki nokkur leið að ná sambandi. Ekki get ég kennt jarðskjálftanum um því, eins og allflestir, ef ekki allir hér á suðurlandi, fann ég ekki fyrir honum. Ekki baun. Kannski veðrið. Kannski ekki. Kannski syfja. Kannski ekki. Einhver skýring hlýtur að vera á þessu “utan við sig” ástandi á manni. Kannski ekki. Kannski er ég bara svona..En ég er ekki ein um þetta. En það hættulega við það er að minn heittelskaði er svona líka og á köflum kannski pínu verri en ég. Í dag var ég þó löglega afsökuð. Móðir mín elskuleg er í borgarferð og því miður ætlar hún bara að stoppa stutt í þetta skiptið svo hver mínúta er nýtt til hins ýtrasta. Það þarf ýmislegt að útrétta og dagskráin þétt. Aðal áhersla er þó lögð á húsgagnabúðir því skvísan er á “breytingaskeiði” og er að leita sér að sófa og ýmsu fíneríi í ný parketlagða stofuna. Það er eins gott að finna sófa því hún losaði sig við þann gamla áður en hún lagði af stað í borgina. Fyrir vikið erum við búnar að rápa búð úr búð í dag og kanna hvað er í boði áður en ákvörðun er tekin um hvaða sófa skal kaupa. Þetta er ekki mín sterka hlið, þótt ótrúlegt megi virðast, búðarkonan sjálf. Ég þjáist nefnilega af búðar óþoli! Ég hélt að þetta væri landlægt hjá karlpeningnum aðallega, en svo er ekki og hefur þetta nú einnig fundist hjá einstaka kvenmanni . Þetta lýsir sér nefnilega þannig að ef farið er í fleiri en tvær búðir í röð án nokkurrar hvíldar eða kaffipásu verður viðkomandi utan við sig eða ráðvilltur. Ef haldið er áfram og jafnvel farið í stórverslun eða verslunarmiðstöð byrjar viðkomandi að stara og á köflum slefa. Ef ekkert er gert í málunum fer minnisleysi að gera vart við sig og viðkomandi veit ekki hvort hann er að koma eða fara. Ekki veit ég til þess að fundist hafi lækning við þessu en með æfingu og andlegum undirbúning á að vera hægt að halda einkennum í skefjum.Ég klikkaði á þessu. Ég bara hellti mér út í þetta án þess að hugsa um afleiðingarnar og fyrr en varði var ég farin að skilja barnið eftir á milli hillurekka í búðunum og jafnvel farin að hengja mig á “vitlausa mömmu” sem var klædd í svipaða kápu og mamma mín. (Eins og um síðustu jól þegar við hjónaleysin vorum að kaupa í jólamatinn og ég var farin að tína matvöru ofan í körfu hjá einhverjum blá ókunnugum manni og farin að vefja handleggnum utanum handlegginn hans og farin að slefa... en nóg um það.. )En ég slapp tiltölulega heil þaðan út með barnið í kerruni og mömmu mér við hlið. Svo var haldið í mesta óþols-skelfirinn IKEA. Ég taldi mig vera nokkuð góða eftir smá bíltúr milli staða og hélt inn “hvergi óhrædd”. Með einkasoninn í regnhlífakerruni og múttu mér á hægri hönd. Þar voru sófarnir stroknir og þæfðir hátt og lágt og miklar pælingar í gangi. Fljótlega fór að bera á einkennunum svo við ákváðum að taka smá hvíld og næra okkur svolítið, sem við gerðum. Saddar og sælar héldum við þæfingum og pælingum áfram og komumst svo á endanum í gegnum þetta ógurlega IKEA-skrímsli án teljandi meiðsla eða sköddunar. Hreykin og stolt gekk ég með höfuð hátt út og sótti bílinn til að færa inn vörurnar, mömmu og barnið. Til að tryggja að barnið gleymdist ekki á bílastæðinu byrjaði ég að setja hann inn í bílinn og snaraði svo þunga kassanum í skottið, klappaði saman höndunum og fálmaði eftir símanum sem hringdi svo óþreyjufullur í veskinu mínu. Á línunni var minn heittelskaði og tilkynnti að hann væri að fara á golfmót og kæmi ekki í kvöldmat. Sem var gott og vel, svo við héldum þá bara áfram að útrétta, búð úr búð. Hring eftir hring. Og næsta stopp, Húsgagnahöllin. Þótti mér tilvalið að setja drenginn í regnhlífarkerruna fínu svo ég snara mér aftur í skott til að sækja græjuna og gríp þá í tómt, engin kerra, bara IKEA poki og kassi. ÚPPS! Kerran góða fékk að dúsa á IKEA planinu allan daginn á meðan við æddum hálf utan við okkur í hverja búðina á fætur annari. En fyrst við vorum komnar alla þessa leið ákváðum við nú að ljúka okkar erindi þarna og renna svo aftur þarna “suðreftir”  og sækja gripinn. Mér fannst þetta auðvitað allt mínum heittelskaða að kenna þar sem hann hringdi nú í mig á þessu viðkvæma augnabliki þegar ég var að raða dótinu í bílinn, en þakkaði mínu sæla fyrir að barnið sat ekki í kerruni þegar ég ók af stað..En meðan þetta flaug allt í gegnum minn útkeyrða heila, sem sýndi nánast öll einkenni óþolsins, hringdi sá heittelskaði og sagði mér frá því, svolítið kjánalegur og flissandi að hann hafi nú eitthvað misskilið þetta með golfmótið. Og ég hugsaði strax: meira fíflið, nú hefur hann farið dagavillt. En svo gott var það ekki. Misskilningurinn lá í Leyni. Golfmótið var haldið á golfvellinum í Leirum í Keflavík þar sem allir hans vinnufélagar voru saman komnir og klárir í slaginn og biðu eftir mínum manni... Sem aldrei lét sjá sig.Hann gerði sér lítið fyrir, tók stefnuna í kolvitlausa átt og dreif sig upp á Akranes þar sem golfvöllurinn Leynir liggur, í öllu sínu veldi.         Mér var að sjálfsögðu skemmt og hugsaði fegin, hann er miklu verri en ég....það leynir sér ekki...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Líkur sækir líkan heim!

Þ 

Þórdís Einarsdóttir, 6.6.2008 kl. 20:07

2 identicon

Hæ hæ Heiða þú ert alveg ferlega góður penni gaman að lesa bloggin þín. Hafðu það sem allra best. kveðja Hanna M.

Hanna Mjöll (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 00:28

3 Smámynd: Heiðrún Björk Jóhannsdóttir

Satt segiru Þórdís. Og Hanna Mjöll, takk fyrir og voða þykir mér vænt um að "sjá þig" hérna.

Heiðrún Björk Jóhannsdóttir, 8.6.2008 kl. 14:09

4 identicon

Sæl og blessuð Heiða!

Ferð þú ekkert að detta inn á þjónustusvæði? Þ.e. tjá þig um líðandi stundu á þinn einstaka hátt? Sakna þess að fá ekkert nýtt að lesa.

Bestu kveðjur að vestan

Sóley Vet (IP-tala skráð) 19.6.2008 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband