Brasilíus Krúsilíus Lúthersson Heiðrúnarson

Ja nú versnar í því, sit hér úti í sólinni og fórnaði sjóngleraugunum fyrir sólgleraugu. Skrifa á fínu fartölvu elskhugans  sem er með svona hundrað sinnum smærra letri en frúartölvan inni á borði. Ég held það borgi sig að sitja með bakið í sólina svo ég verði ekki eins og svarthvít hansagardína í framan eftir að rýna rangeygð í nettan tölvuskjáinn.

 

 

 

 

 

 

 

 

Á meðan þessi orð eru skrifuð er herra Brasilíus Krúsilíus Lúthersson Heiðrúnarson að dunda sér við að borða sheriosið sem datt í grasið þegar hann borðaði hádegismatinn, hafragraut með epla og perubragði með sherios ívafi. Á misjöfnu þrífast börnin best er mér sagt og við lifum samkvæmt því. Drengurinn er búinn að vera  að brasa úti í garði upp á hvern einasta dag síðustu vikur og varla mátt vera að því að borða eða sofa. Þegar hann vaknar skríður hann út að svalahurð og bankar og kallar og vill komast út, svo þegar ég færi hann inn á hol aftur, vælir hann og færir sig að útidyrahurðinni og leikur sama leikinn þar. Hann vill komast út! Og það strax! Litli útipúkinn..En svona höfum við eytt okkar dögum undanfarið, úti í garði á éta gras og einstaka sóley fær að fljóta með. Hann veit alveg að það er bannað, því þegar hann slítur upp eina sóley lítur hann á mig sposkur á svip, hristir hausinn og hendir henni frá sér og fær sér aðra og stingur upp í sig. Hann er svo duglegur, rétt rúmlega níu mánaða. Ekki nóg með að vera farinn að standa allsstaðar upp og  ganga meðfram er hann að myndast við að tala nokkur orð eins og mamma, babba, datt ofl. Svo vinkar hann og segir babbabb.Í gær þegar ég spurði hann hvar Íris væri og við kölluðum á hana sagði hann svo vel mátti greina „Íris“. Hér er greinilega undrabarn á ferð :)

 

 

 

 

 

 

 

 

Þann 17 júní brugðum við undir okkur betri fætinum og snöruðum okkur upp á Akranes og réttum okkar kæru vinum Addý og Gylfa hjálpar hönd (betri höndina að sjálfsögðu) við húsbygginguna. Og vorum við á betrihnjánum við að flísaleggja bílskúrinn svo þau geti flutt inn í hann sem fyrst. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema að sjálfsögðu tókum við litla snillinginn með og allar tilheyrandi græjur, svo sem nesti, bleyjur, vagn, og göngugrind svo hann gæti eitthvað hreyft sig því ekki er hægt að láta drenginn ryksuga og skúra steypugólfið. Í þessari líka bongó blíðu var hann að mestu úti á plani að leika við Baldur Frey, son þeirra hjóna á Klöpp. Við mikla kátínu sat hann þar í göngugrindinni góðu með allskonar dót og þessa flottu gasblöðru af Svamp Sveins ætt þar til hún dó drottni sínum. Svo lyftist heldur betur brúnin þegar Sölvi, verðandi nágranni, og vinur Baldurs mætti á svæðið. Þá skríkti litli snillingur og spændi upp planið af gleði þangað til stóru strákarnir hurfu út á götu og eftir sat Hugi einn og yfirgefinn, fastur í mölinni. Þá voru góð ráð dýr og allur kraftur settur í að komast á eftir þeim, en ekkert gerðist fyrr en mamma kom til hjálpar og ýtti kauða út á götuna. Í göngugrindinni æddi hann fram og til baka, hring eftir hring upp og niður götuna með hendur á lofti, skríkjandi og hlæjandi.  Ekki varð dagurinn leiðinlegri þegar félagarnir mættu á rafmagnsbíl af bestu gerð og þustu um malbikið og Hugi, eins og riddari götunnar, elti þá á sinni fótknúnu köflóttu göngugrind stoltur og hreykinn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jíííííííí

Ný færsla, frábær lesning að vanda. Ég er ekkert hissa að kúturinn sæki svona í sóleyjarnar, enda með eindæmum góðar og aðlaðandi.

Bestu kveðjur í bili frá einni af sóleyjunum.

Sóley Vet (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 23:48

2 identicon

það er eins gott að sleppa honum ekki út á götu í Drápuhlíðinni hlakka til að hlaupa á eftir honum í næstu viku

Guðmundína Stefanía (IP-tala skráð) 22.6.2008 kl. 18:12

3 Smámynd: The suburbian

OMG hvað það er gaman að lesa þetta hjá þér gæskan. Það er greinilega nóg að gera á þessum bænum  Bevare annars því Dóran er á leið í bæinn og það er spurning hvort hvítvínið sé orðið kalt á föstudaginn?

The suburbian, 24.6.2008 kl. 01:06

4 Smámynd: Heiðrún Björk Jóhannsdóttir

Jeh baby jeh. Hvítvínið er klárt fyrir ykkur elskurnar...

Hlakka til að sjá ykkur.

Heiðrún Björk Jóhannsdóttir, 24.6.2008 kl. 10:20

5 Smámynd: Ísbjörn

Bara að láta vita af mér.

Frétti af þér á Ísó? Ertu til að hittast, skulda þér og vil frá að borga

KV Sóley

Ísbjörn, 30.6.2008 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband