Að gefa skít í sjónvarpsdagskránna

 Aldrei hélt ég að það ætti fyrir mér að liggja að blogga um sjónvarpsdagskránna á laugardagskvöldi. En það er nú öðru nær. Hér sit ég og læt móðan mása í stað þess að hundskast inn í rúm með góða bók. Og kúra hjá herra hlaupabólu 2008 og vera tilbúin í slaginn ef strjúka þarf bak eða bumbu þakin bólum. Litli kallin er eins og gatasigti. Með bólu við bólu hátt og lágt. Og engir líkamspartar undanskyldir. Meira að segja litla typpið sleppur ekki svo vel. Það var mitt fyrsta verk í morgun að rífa af honum bleyjuna og leyfa honum að göslast svolítið bleyjulaus og viðra litla bossann. Tók hann því fagnandi og hljóp hér um íbúðina eins og blaðra að hleypa út lofti og skríkti og hló. Ég var hin rólegasta og fylgdist með honum með öðru auganu á meðan ég sinnti hinum ýmsu húsverkum. Án þess þó að elta drenginn milli herbergja. En svo tók ég eftir því að hann dvaldi helst til lengi og hljóðlaus í stofunni svo ég ákvað að athuga með hann, vitandi hve uppátækjasamur hann er orðinn og bjóst við að finna hann jafn vel uppí efstu hillu eða uppí gluggakistu.  Þegar ég kíki fyrir stofu hornið sé ég undarlegan svip á syninum, þar sem hann stendur í sófanum og starir á mig  ákveðinn, með kringlótt svarbrún augun, stút á munninum og hreyfir sig hvergi. Ég hugsa með mér að nú sé eitthvað að gerast sem oftast á sér ekki stað í stofusófanum. Stekk af stað og sé fyrir mér stórann poll við fæturna á honum, en svo var ekki.  Þegar betur var að gáð sá ég  brúnan hlunk gægjast út á milli rasskinnanna, æðandi á ógnarhraða með stefnuna á ljósa sófasetuna. Þá voru góð ráð dýr. Ég teygi mig, hratt og örugglega í átt að stofuborðinu og hrifsa til mín, það sem hendi var næst. Sjónvarpsdagskránna. Með snerpu og ákveðni næ ég, á síðustu stundu, að smeygja bleðlinum undir þann brúna. Og bjarga þar með sjónvarps og gestasófanum frá blygðun og smán. En dagskráin fékk það óþvegið!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ísbjörn

Haha, þessi saga er snilld. Gaman að ,,heyra" frá þér aftur Heiða mín. Ég var farin að halda að þú værir búin að yfirgefa landið og miðin. Hvað er svo að frétta? Kv Sóley Vet

Ísbjörn, 16.3.2009 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband