...Og meira af Grænlandi

  Nú er elskhuginn búinn að vera á Grænlandi í rúmar tvær vikur og líkar vel. Reyndar bara hæst ánægður með lífið á Grænlenskri grund. Enda annálaður veiðimaður og ofvirkur náttúruunnandi í ofanálag. Með hrikalega náttúruna í bakgarðinum og byssuna rétt innan seilingar hefur hann ekki yfir neinu að kvarta. Og til að bæta ofan á gleðina eru staddir í þorpinu þrír íslenskir smiðir á svipuðum aldri og með sömu áhugamál. Sem sagt nett ofvirkir byssuglaðir göngugarpar í föðurlandi og flíspeysu. Gæti ekki verið betra..  Annars leggst vinnan vel í hann og lítur út fyrir að vera nokkuð fjölbreitt þar sem hann á að sjá um eignir bæjarfélagsins Nanortalik sem telur 6 þorp og bæi og í byggðarlaginu búa ca 2500 manns. Svo hann mun þurfa að ferðast svolítið á milli staða. Vinnudagurinn er frá 8-4, svo þetta er nánast eins og að vinna bara hálfann daginn. Mjög danskt og fjölskylduvænt. Ég hlakka mikið til að flytja þarna út og upplifa eitthvað alveg nýtt.  Þarna eru allt önnur gildi, ekkert kapphlaup við tímann eða tískuna. Ekkert stress. Engin yfirvinna. Nægur tími með fjölskyldunni og kannski tími til að gera eitthvað annað en vinna, sofa, borða...mata, skeina og skrúbba.. Ég verð að viðurkenna að mér leist ekkert á blikuna þegar  Lúther spurði mig hvort ég vildi flytja til Grænlands. Ég sá fyrir mér ,eins og kannski flestir sem ekki þekkja til, lítið afskekkt þorp, allt á kafi í snjó og blindfulla tannlausa grænlendinga rúllandi um þorpið með buxurnar á hælunum.  En svo fórum við að skoða málið betur þá kom ýmislegt spennandi í ljós. Bærinn minnir svolítið á Ísafjörð og það er gaman frá því að segja að Nanortalik er vinabær Ísafjarðar. Þarna eru búsettir danir, færeyingar og grænlendingar í bland og er svolítið danskur bragur á bænum. Þarna er allt til alls, skóli, leikskóli, heilsugæsla og sjúkrahús matvörubúðir, fatabúð og gjafa og minjagripabúð, hótel, veitingastaður, kjöt og fiskmarkaður og svona má lengi telja. Og er jafnvel meira vöru úrval en á Ísafirði ef eitthvað er.  Þetta er mikill ferðamannabær og stoppa skemmtiferðaskip þarna á sumrin á leið sinni norður um höf. Atvinnumöguleikar fyrir mig eru ágætir þó ég fari kannski ekki í blóma eða útstillingabransan. Þá er ýmislegt hægt að finna sér til dundurs og jafnvel gera að atvinnu minni. Ég sá strax að þarna var kannski komið tækifæri til að nota pennann meira og  gerast rithöfundur í eitt skipti fyrir öll. Haldið ykkur bara, aldrei að vita nema ég blandi mér í jólabókaflóðið á næsta ári. Svo hafa komið upp ótal skemmtilegar hugmyndir sem ég segi ykkur frá í næstu bloggum. Og ég lofa að standa mig betur í skrifunum og leyfi ykkur að fylgjast með. Endilega að koma með komment og spurningar... Ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en birtist hér von bráðar aftur.  Grænlenska grasekkjan.   

...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arndís Baldursdóttir

Úffe Elleman Jensen, þetta verður ævintýri.

Arndís Baldursdóttir, 18.3.2009 kl. 00:19

2 Smámynd: Ísbjörn

Sammála síðasta ræðumanni, þetta verður þvílíkt ævintýr. Hvenær ferðu svo út? Þú bara verður að vera dugleg að skrifa og segja frá. Ertu að vinna í því sem við töluðum um hjá Dísu?  Ég bíð spennt!!!!!

Bestu kveðjur, Sóley

Ísbjörn, 19.3.2009 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband