Það hafa mörg vötn runnið til sjávar síðan ég tengdist síðast alnetinu dásamlega. Nema kannski vatnið sem blasir við mér þegar ég lít út um nýja eldhúsgluggann minn. Það er svo gadd forsið eftir langa og harða frost-tíð síðustu vikur að því hefur verið breytt í gönguskíða og útivistarsvæði fyrir bæjarbúa.
Jebb, nú erum við sest að í San Fransisco norðursins, Qaqortoq. Lífið hefur tekið miklum breytingum síðustu netlausu vikur. Og við öll komin á fullt í okkar hlutverkum og venjum. (fyrir utan að hanga á netinu í tíma og ótíma). Hugi er byrjaður á nýjum leikskóla og er að rifna úr gleði og hamingju á nýja staðnum. Það er svo gaman að hann vill helst ekki koma heim í lok dags. Enda leikskóli fullur af leikföngum, skemmtilegum börnum og yndislegum konum sem hugsa vel um börnin. Þetta er mikill munur frá gamla leikskólanum í Nanaortalik þar sem boðið var upp á eitt herbergi og örfá leikföng sem ekki var hægt að deila á börnin, þar sem þau voru fleiri en leikföngin, svo það var lítið annað hægt að gera en að slást og leika spiderman eða hnoðast á gólfmottunum. Hér eru mörg herbergi full af spennandi hlutum. Við erum að tala um boltaherbergi, föndurherbergi, leikfangaherbergi, hugge stofa og borðstofa. Spennandi útileikvöllur og fullt af snjó! Þetta er blandaður leikskóli og er töluð bæði danska og grænlenska. Svo drengurinn er farinn að blanda dönsku saman við íslensku og grænlensku. Ég verð að viðurkenna að ég á stundum erfitt með að skilja barnið svo ég þarf afog til að fá aðstoð frá vinum til að vita hvað drengurinn er að tala um. En þetta kemur..
Íris er hér enn og hefur lítið sýnt á sér fararsnið, mér til mikillar gleði og ánægju því ég vil auðvitað hafa hana sem lengst. Hún hefur eignast fullt af góðum vinum og er ánægð með nýju heimkynni sín. Lærir grænlensku á fullu og er orðin rúmlega mellu fær á dönsku svo hún getur óhrædd farið að leita sér að vinnu. Hún er búin að skrá sig í menntaskólann í Qaqortoq fyrir næsta vetur og stefnir á að prufa einn vetur í Grænlenskum menntaskóla. En örvæntið ekki, þið sem saknið hennar. Hún kemur í einhvern tíma í vor og verður á Íslandi eitthvað fram eftir sumri reiknum við með. Svo ef allt gengur að óskum verðum við öll saman hérna næsta vetur.
Lúther er á fullu í sinni vinnu og líkar vel á nýja staðnum. Og eins og við var að búast er eins og hann hafi alltaf búið hérna og þekkir alla. og eins og vanalega, aaaalltaf í símanum ;) Sjálf er ég búin að ráða mig í vinnu í túrista búðinni hér í bæ með vinnu á mánudögum og leysi svo verslunarstjórann,hina íslensku Eddu, af þegar hún þarf frá að hverfa. Það stefnir í svolitla fjarveru hjá henni svo ég fæ nóg að gera á næstunni. Svo er stefnan jafnvel tekin á að taka að mér búðina í sumar svo það eru spennandi timar framundan. Ennþá er nóg að gera í selskinns braskinu og er ég núna að saxa á biðlistann sem safnaðist upp fyrir jól og nú í janúar í flutningunum svo það er allt að gerast í þeim málum. Og er byrjuð í fínu vinnunni minni svo ekki leiðist mér...
Af húsnæðismálum er það að frétta að við fengum litla og sæta íbúð á fallegum stað við vatnið. Það er stutt í leikskólann en nokkuð bratt og ekki svo langt að fara í bæinn og vinnuna, nokkurn veginn á jafnsléttu. Gallinn er samt sá að á sumrin er hér allt krökkt af mý flugum og moskito svo það er ekki alveg að henta hinni ofnæmisglöðu Írisi. Það er ekki það eina. Ég veit ég sagði lítil, en ég meinti OF lítil. Svo lítil að við komum ekki nema broti af húsgögnum okkar fyrir. Hvað þá öllu smádóti og bókum. Svo núna bíðum við eftir stærra og hentugra húsnæði. Það varð úr að við útbjuggum rúm fyrir Írisi úr bókakössum og krossviðs borðplötu úr öðru saumaborðinu mínu. Við settum dýnurnar úr rúminu okkar ofan á stofu sófann því rúmið okkar komst ekki upp á efri hæðina og ekki pláss fyrir sófann i stofunni. Er því geymslan og hvert einasta skúmaskot fullnýtt með samanbrotnum húsgögnum, rúmum, pappakössum, tjaldbúnaði og útivistardóti. Við erum að tala um forstofu, þvottahús, eldhús, borðstofu, stofu og saumastofu á ca 45 fermetrum. 3 herbergi og bað á efri hæðinni sem er ca 35 fm. Þetta er svolítið annað en fína 100 fm húsið sem við vorum í, í Nanortalik. Eitt glas út úr eldhússkápnum og þá er allt í drasli! Ég þakka enn og aftur fyrir mína 10 í útvíkkun og þá kunnáttu að koma miklu drasli fyrir í litlu plássi. Á eiginlega skilið fálkaorðu fyrir! Skyldi herra Ólafur Ragnar vita af þessu!?
Aðrar fréttir eru þær að við erum að fá einn harðasta og kaldasta vetur síðustu 10 ár hérna á Grænlandi. Það hefur varla fest snjó fyrr en nú og hefur frostið verið frá -5°og farið niður í -20°. Síðasti vetur var nánast snjólaus og mjög hlýr svo við erum að upplifa algera andstæðu. En sólin lætur samt alltaf sjá sig reglulega og þá er ekki laust við smá páskafiðring. En þrátt fyrir það líður okkur mjög vel og erum mjög glöð og ánægð með nýju heimkynni okkar hér í Qaqortoq. J
Bloggar | 8.2.2011 | 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Alveg frá síðustu jólum, sem við héldum á Íslandi, höfum verið hörð á því að halda þessi jól, jólin 2011 á Grænlandi. Á okkar heimili, með okkar jólamat, jólaskrauti og hefðum og með okkar eigin nefi.
Þar sem ég er alltaf alger haugur á jólunum og hef alltaf þráð að eiga sannkölluð náttfata jól, þar sem ég þarf ekki að fara úr náttfötunum öll jólin og fæ að haugast í sófanum eða upp í rúmi í ró og næði með mína nammikistu, góða bók eða mynd. En þar sem jólin eru hátíð fjölskyldunnar þá eru jólin alltaf fullbókuð af matar, kaffi og kakóboðum með tilheyrandi guðaveigum, sparifötum og tilhafningi. Sem krefst þess að maður þarf að standa upp úr sófanum, leggja frá sér nammikistuna og fara úr náttfötunum. Og jafnvel troða sér í þröngar sokkabuxur með tilheyrandi andþrengslum, kláðafactorum og óþægindum, kjól sem einhverra hluta vegna hefur minkað um nokkur númer síðan á aðfangadagskvöld og binda upp hárið með blóðlausum handleggjum (sökum leti og hreyfingaleysis) og skakklappast á háu hælunum í fljúgandi hálkunni milli húsa. En auðvitað er þetta alltaf skemmtilegt og notalegur partur af jólunum svo auðvitað vill maður ekki sleppa þessu.Í ár sá ég fram á drauma jólin. Stóru náttfatajólin. Meira að segja var planað að fara í náttfötin fyrir kvöldmat á aðfangadag og borða rammíslenskan hamborgarahrygginn á náttfötunum.
Jebb, við vorum með vaðið fyrir neðan nefið og sendum heim til Íslands góðan og vel ígrundaðan innkaupalista yfir það sem okkur vantaði til að halda alvöru jól. (og vorum snemma í því, því ekki ætluðum við að klikka á aðal atriðunum.) Efst á lista voru auðvitað hangikjötið, suðusúkkulaði, hamborgarahryggur á beini (því það er ekki í boði hér á landinu græna) smá malt og appelsín og sitt lítið af hverju úr íslensku nammihillunum. (til að setja í nammiboxið svo hægt væri að haugast með stæl). Að lokum nokkur jólatímarit til að glugga í yfir jólatebollanum síðustu dagana fyrir jólin. Já ekkert átti að klikka og Dísa mágkona send eins og berserkur búða á milli í jólainnkaupin fyrir okkur grænlensku jólasveinana. Svo var öllu komið á skip vel tímanlega fyrir brottför og áætlaður komutími til Nanortalik var 20 des. Svo nú var hægt að einbeita sér að alvöru jólaundirbúningi með bakstri og jólagjafastússi.Jólaundirbúningurinn var skemmtilegur og ekkert svo frábrugðinn þeim íslenska. Íris kom í byrjun des eftir langt og ævintýralegt ferðalag með tilheyrandi grænlenskum töfum og frestunum (sem er nú saga út af fyrir sig) . En til að gera langa sögu enn lengri, þá tók það 5 daga, segi ég og skrifa, að komast alla leið. Hér á Grænlandi gengur allt miklu hægar en í öðrum löndum. Þá er ég ekki bara að tala um klukkuna, heldur bara allt. Og allt virðist vera leyfilegt og enginn segir neitt. Það má bara fresta flugi, að því er virðist að ástæðulausu, og enginn segir neitt. Það er allt í lagi þó það vanti heilu vöruflokkana í verslanir og jafnvel helstu nauðsynjar ekki fáanlegar í heilu bæjarfélögunum, og enginn segir neitt!! Á Íslandi verður allt vitlaust ef fólk þarf að bíða lengur en fimm mínútur í röð í matvörubúðinni!! Svo það var lítið annað að gera en að taka grænlendinginn á þetta láta axlir síga og segja ekki neitt. Hún skilaði sér á endanum og þá máttu jólin koma. Við skemmtum okkur konunglega við jólabaksturinn og jólatiltekt milli þess sem við sátum við saumavélina. Það var nóg að gera í selskinnsbransanum og var oftar en ekki saumað fram á nótt. Og ekki þótti mér verra að hafa félagsskap(ekki af internetinu) þar. Þetta áttu í upphafi, ekki bara að vera drauma-náttfata-jól heldur átti undirbúningurinn og aðventan sem slík að vera hin rólegasta. Dúllerí út í eitt. En einhvern veginn kem ég því alltaf þannig fyrir að ég er önnum kafin fram á síðustu mínútu og á svo engan tíma eftir fyrir mínar eigin jólagjafir eða mitt dullerí. En það er bara gott. Og gaman frá því að segja að nú hef ég stofnað lítið fyrirtæki í kringum selskinnið, með eigin fyrirtækjanúmer og allt. En til að gera langa sögu enn lengri neinei, segi frá því síðar JEn allavega, þá var ég mjög fegin þegar 1. Desember rann upp. Þá gat ég loksins komið út úr jólaskápnum með mín jólalög og jólaljós. Þar sem ég hef alla mína tíð unnið í blómabúð með tilheyrandi snemmbúnum jólaundirbúningi, þá held ég að líkamsklukkan mín sé stillt inn á jólaundirbúning í október. Bara rétt eins og við þurfum að sofa á svipuðum tíma sólahringsins, verðum yfirleitt svöng á sama tíma o.s.frvs. þá dett ég í eitthvert "jóla coma" í byrjun október. Þetta er mikið feimnismál þar sem venjulegt fólk er enn að láta framkalla sumarleyfismyndirnar. Og heldur enn dauðahaldi í yljandi minningar frá sumrinu. Eða er á fullu í svona haust stússi, taka slátur, tína ber og sulta, taka upp kartöflur og guð má vita hvað. Og ekki farið að, svo mikið sem hugsa um jólin. Nei ,þá er mín komin á kaf í gömlu jólablöðin. Með jólate í bolla, sem hún hafði hamstrað jólin áður og sett í frystikistuna til að eiga í te dreitil í október. Byrjuð að plana hvað eigi að baka, hvernig jólagjafir eigi að búa til og hvað skal föndra. Byrjuð að hanna jólakortin í huganum og sanka að sér efni í kortin, því auðvitað er stefnt á að senda út jólakort eigi síðar en 1. Des. (jee right) Einkasyninum var þrælað í jólakortaföndrið þetta árið. Sönglaði hann yfir föndrinu grænlensk jólalög hástöfum og gaf innfæddum ekkert þar eftir. Það gekk nú vonum framar miðað við ofvirkni tendensa sem hann gjarnan sýnir. En smátt og smátt með nokkrum jólakortum á dag, tókst að föndra upp í allan þann fjölda jólakorta sem voru á jólakortalistanum þetta árið. Þá var bara að finna tíma til að skrifa á kortin. sem er allt annar handleggur !! En þrátt fyrir að vera svona mikil jólakerling þá elska ég líka haustið. Þó ég taki ekki slátur, þá tek ég nú smá haustverka rispu milli þess sem ég missi míg í jólaæðið. Ég tók að sjálfsögðu upp kartöflurnar sem ég setti niður í vor, týndi nokkur krækiber og allt það. En haustverkin snerust þó að mestu um jólin. Eins og fjallageit æddi ég upp um fjöll og firnindi að tína tejurtir. Svo mikið týndi ég að við megum þakka fyrir að jurta stofninn lifi þessa tínslu af. Allt í þágu jólanna. Því jólagjöfin í ár voru handsaumaðir grænlenskir tepokar með handtýndum telaufum. (hvorki meira né minna) Þar með var mínum haustverkum lokið og ekkert annað að gera en að halda áfram að laumast og læðupokast í jólaskápnum.Desember leið hratt með sínum jólaundirbúningi, saumaskap og auðvitað vinnunni í búðinni. Sem ég reyndar sagði upp eftir að hafa fengið fyrsta launaseðil í hendurnar. En ég kláraði að koma fyrir jólasendingunni sem kom í byrjun desember (eins og ég sagði áður, gerist allt mjög hægt og ekkert stress í gangi þó það séu að koma jól) og vann því fram í miðjan desember. Auðvitað var ég ekkert laus við jólastressið þetta árið þó ég búi í ekkert stress landi. En það er einmitt þess vegna sem ég lenti í mínu jólastressi. Það á ekki vel saman framleiða vörur í stresslausa landinu og selja vörur til Íslands, lands stress og ákafa. En það er ekki við kúnna mína að sakast, auðvitað vilja þeir fá sínar jólagjafir á réttum tíma undir tréð þó mínum löndum þyki það ekkert issjú. Ég var nefnilega upp á eina grænlenska konu komin með að panta og kaupa selskinnið af. Ég var að sjálfsögðu tímanlega með mína pöntun, rétt eins og með jólamatinn. En að sjálfsögðu gerðist ekkert , ég rak á eftir þessu í tæpar þrjár vikur þangað til ég gafst upp og reddaði mér fyrir horn á annan hátt. Alveg á síðasta snúning, því auðvitað átti eftir að sauma fjöldann allan af lúffum og töskum og jólin að bresta á! En það bjargaðist allt saman, að mestu. Þess vegna kippti ég mér einhvern veginn ekkert upp við þær fréttir að skipinu með jólamatnum okkar og hluta af jólagjöfunum hefði seinkað og væri ekki væntanlegt fyrir en á aðfangadagsmorgun. Og vörurnar ekki afgreiddar fyrr en þann 27. Des. Enn og aftur tókum við grænlendinginn á þetta með lafandi axlir og smá Pollyönu líka. nú jæja, við höldum þá bara aftur jól þegar sendingin okkar kemur í hús það er ekki eins og við eigum ekki einhverja spennandi villibráð í kistunni.Þorláksmessa var svolítið öðruvísi. Það er alltaf einhver stemming yfir hinni íslensku þorláksmessu. Skötulyktin yfir öllu er einhvern veginn byrjunin á jólunum. Hér var engin skata á boðstólum. Ekki svo mikið sem vond lykt af einhverjum af þessum illa lyktandi grænlenska mat að finna. Óneitanlega saknaði ég þess að komast ekki í skötuveislu til mömmu. (við vorum í staðinn bara flott á því og fengum okkur sushi) En þetta er jú partur af því að halda jólin á Grænlandi. Við fengum snjóinn og góða veðrið svo ekki höfðum við yfir neinu að kvarta og ekkert annað að gera en að drífa sig í bæinn í búðarráp og kaupa síðustu jólagjafirnar og möndlu í desertinn. Já hlæið bara!! Það eru nokkrar búðir hérna í þorpinu og sumstaðar meira að segja gott úrval. Hugi tók stóran þátt í versluninni og fann í einni búðinni forláta inniskó.... Sagði forláta? Ég meinti forljóta.. Hann var snöggur að snara þeim upp á afgreiðsluborðið eftir að hafa rekið augun í þá. Þegar ég spurði hann hvort hann ætti pening , rétti hann fram höndina að pabba sínum og sagði ákveðinn gemmér. Út gekk hann, sérdeilis lukkulegur með loðfóðraða croccs spiderman inniskó í poka í annari og greiðslukvittun í hinni.
Þó miðbær Nanortalik sé smár þá fengum við samt smjörþefinn af laugavegs stemningunni. Sama gleðin ríkti hér eins og þar. Og eins og grænlendingum sæmir voru allir mjög glaðir og brosmildir og allir að óska okkur gleðilegra jóla. Hér er þó ekki sama kaupmannsgleðin eins og heima á Íslandi. Búðirnar loka á venjulegum tíma svo það er eins gott að klára öll innkaup fyrir kl 6 á þorláksmessu. Ef eitthvað gleymist, þá er lítið við því að gera því jólin byrja á aðfangadagsmorgun en ekki kl 6 eins og hjá okkur. Og því allar búðir (og skipaafgreiðslur) lokaðar. Jólagjafirnar eru opnaðar um morguninn svo er dagurinn tekinn rólega með heimsóknum og huggulegheitum. Klukkan 6 sameinast fjölskyldan svo yfir jólamatnum. Við fengum óvænta og gleðilega heimsókn á aðfangadag. Nokkrir krakkavinir okkar náðu okkur á náttfötunum og ég enn að pakka inn síðustu gjöfunum. Voru þau mjög hissa á að við vorum ekki enn komin í jólafötin og búin að opna pakkana . Hugi var að vonum spenntur og ekki minkaði spennan þegar hann fékk að raða pökkunum undir tréð. Ég í einlægni trúði að pakkarnir fengu að vera í friði það sem eftir lifði dags. (einmitt!!) En ég átti fullt í fangi með að halda honum frá jólapökkunum og fékk hann því að opna pakka af og til, til að halda ró sinni. Eða.... ekki... spennan var svo svakaleg að hann fékkst ekki til að borða einn munnbita eða sitja kyrr í svo mikið sem 30 sekúndur. Áður en við náðum að byrja að opna pakkana var hann búinn að pissa þrisvar sinnum í buxurnar!! Svo þannig fór að Hugi var á nærbuxunum að opna restina af pökkunum og við hin svindluðum og fórum í sparifötin (jólasveinninn gaf mér svo fínan kjól svo ég mátti til með að nota hann.) En jólanáttkjóllinn fékk að hanga á herðatré eitthvað fram eftir kvöldi. Undur og stórmerki gerðust svo á jóladag. Ég dreif mig úr náttfötunum, (eldsnemma um hádegisbilið)sleppti því að haugast og fór í göngutúr og heimsókn á jóladag. Og líka á annan í jólum!! Þetta hefur bara ekki gerst svo elstu menn muna. Allt fór á annan veg en ráðgert var. Engin náttföt á aðfangadagskvöld, ekkert haugast yfir nammikistunni og bók og enginn jólamatur..fyrr en eftir jól. Og reyndar ekki fyrr en eftir áramót. (samkvæmt nýjustu fréttum 3.janúar) Þá höldum við bara aftur jólin. Með hangikjöti og laufabrauði, jólapökkum og heitu súkkulaði. (og kannski desert með möndlu en ekki poppmaís) Það þýðir aðeins eitt; að ég er ekkert of sein að senda restina af jólakortunum sem ekki náðist að skrifa á fyrir fyrri jólin. Ég næ því eftir allt saman fyrir jól.Bloggar | 3.1.2011 | 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það eru margir sem halda að ég sé mjög einmanna og einangruð hérna á Grænlandi. Ég viðurkenni að svo sé nú stundum. En mjög sjaldan samt. Ég er bara þessi týpa sem er sjálfri mér nóg og finn mér alltaf eitthvað skemmtilegt til dundurs. Ef ég er ekki að ganga berserksgang í garðinum mínum, skrifa eða að sauma þá er ég að ryksuga, baka eða þrífa. Þrifin reyni ég að gera skemmtileg með því að setja upp hárið og jafnvel set ég á mig varalit ef því er að skipta. Ef ég er alveg í essinu mínu fer ég í kjól, helst litríkan. Ef ekki litríkan , þá að minnsta kosti set ég á mig hálsmen. Svo er ég líka svo heppin og bý svo vel að eiga einn lítinn fjörkálf sem ætið sér mér fyrir skemmtiatriðum. Á hverjum degi er hann með uppá komur. Stundum oft á dag. Allt óæft og óundirbúið. Svo það mætti segja að ég lifi frekar innihaldsríku og spennandi lífi hérna, næstum við endamörk alheimsins.
Félagsskapurinn er kannski ekki alltaf svo ýkja spennandi. Samræður við þriggja ára soninn, fjörkálfinn, eru ekki beint djúpar. Þær snúast mest um hákarla, hífukrana og helikopter. Gosa, engisprettu og óskastjörnu. Þó breyttust samræðurnar aðeins eftir að drengurinn byrjaði á leikskólanum. Þá fór hann að segja mér í óspurðum fréttum frá slagsmálum og skemmdarverkum og að hann hafi verið að berja krakkana í hausinn. Ég auðvitað las honum lífsreglurnar um að svona nokkuð væri bannað og þetta þætti ekki falleg hegðun hjá þriggja ára dreng. Svo nú eykst spennan dag frá degi. Ég bíð eftir símtali frá leikskólanum Þar sem mér er tilkynnt að syni mínum hafi verið vikið úr skólanum og ég vinsamlegast beðin um að sækja hann hið snarasta ! Segið svo að líf mitt sé ekki spennandi !
Á meðan að drengurinn er í leikskólanum nýti ég daginn út í ystu æsar. Geri hluti sem ég gat/get ekki gert á meðan hann er heima. Svo sem eins og að pissa í friði, fara í sturtu, drekka heitt kaffið, kíkja á facebook og svona má lengi telja. Hluti sem venjulegt fólk fær yfirleitt að gera í friði. Og að sjálfsögðu að skrifa og sauma. Ég elska þetta. Geta allt þetta, í ró og næði. En þá kemur það... enginn að tala við. Engar frásagnir af engisprettum og hákörlum. Engar uppákomur, engin hljóð frá sjónvarpinu (Gosa og félögum til dæmis) þá Kemur facebook sterk inn. Að kíkja á facebook er, fyrir mig, eins og að skreppa í heimsókn eða á kaffistofuna og fá nýjustu fréttir og slúður. Hver er að baka og hvað. Hver skrapp á Thai koon í hádeginu eða fékk sér Subway í kvöldmatinn. Hver svaf yfir sig og hver fór á sín hvorri sort af skóm í vinnuna. Þar get ég líka, að sjálfsögðu, deilt mínu spennandi lífi. Frá nýjasta uppátæki sonarins. Nýjustu laxafréttum eða hvað sem á daga mína hefur drifið. Og stunda ég þetta veggjakrot grimmt. Þetta þykir fólki auðvitað mis merkilegt og oft fæ ég engin viðbrögð. Þetta er ekki nálægt eins spennandi og það sem er að gerast á Austurvelli eða matseðillinn á Tapas. Svo ég skil þetta mæta vel. Samt held ég ótrauð áfram, að tala við vegginn, það er jú það eina sem ég hef svona yfir hábjartan daginn.
Það er alltaf gaman þegar sonurinn kemur heim af leikskólanum og maðurinn kemur heim úr vinnunni. Þá lifnar allt við á ný. Þá er þögnin á facebook ekki eins skerandi, hákarlasögur hljóma eins og sinfonía og hjal mannsin í símtólið eins og fersk hafgolan. Húsið fyllist af lífi á ný. Já þið lásuð rétt. Maðurinn minn kemur sjaldnast inn úr dyrunum öðruvísi en með símtólið á eyranu. Hann er eins og versta kelling þegar að símahjali kemur. Ímyndið ykkur verstu símakjaftakerlingu sem þið þekkið. Margfaldið með tíu, og útkoman er maðurinn minn. Ég þakka fyrir að atvinnurekandinn borgar símreikninginn. Annars kæmumst við sennilegast aldrei í frí. Ég tek þeim stundum fagnandi þegar hann er ekki í símanum. Þá er loksins einhver fullorðinn að tala við. Ekki einhver sem svara öllum spurningum mínum með hákarl. Reyndar er það nú svo að stundum tala ég og tala og fæ ekkert svar, ekki einu sinni hákarl. Ég er orðin vön því og reyni að láta það ekki fara í taugarnar á mér. Hann er sennilega eins og flestir karlmenn. Stikkorðin, þið munið. Eitt kvöldið í vikunni lenti ég í mjög svo furðulegu samtali/eintali við manninn minn. Það var nú samt doldið fyndið, verð ég að segja. Ég sat inn í saumaherbergi við saumavélina og hann í stofunni hinumegin við vegginn, í þögninni. Það er alltaf sama sagan, ég tala og tala. Fæ ekkert svar. Þar sem ég er orðin alvön því gefst ég þó ekki upp og held áfram. Segi honum að ég hafi áhyggjur af syninum í útlenska leikskólanum og hann væri örugglega að lemja börnin til óbóta. Þá hló hann dátt og innilega. Svo þagnaði hann og ég hélt áfram. Þá sagði ég honum að mig vantaði meira selskinn til að sauma úr og færi alveg að verða lens. Þá hló hann enn hærra en áður og sló á lærið á sér. Mér fannst þessi viðbrögð heldur furðuleg og stóð upp til að athuga hvort maðurinn væri hreinlega á einhverju. Þegar vel var að gáð sá ég og heyrði að hann var að hlusta á Góði dátinn Svejk á hljóðsnældu, með heddfónana í eyrunum. Mér var dauð- létt. Hann var þá ekki að tapa sér. Og hann hafði góða og gilda ástæðu fyrir að svara mér ekki.
Þetta er nú bara eitt dæmi af mörgum, oftar en ekki tala ég fyrir tómum eyrum. Ég vil ekki meina að það sé vegna þess að ég sé svo leiðinleg. ..eða hann. Hann er bara karlmaður. Sem getur bara gert eitt í einu. Ef hann er að horfa, hlusta eða bara að hugsa. Heyrir hann ekki. Svo var það einn eftirmiðdag. Strákarnir komnir heim. Og heimilið iðaði af lífi. Gosi kominn í tækið og sonurinn að horfa með öðru og var að veiða hákarl á símasnúruna með hinu. Ég svíf um eins og fiðrildi, búin að baða mig og komin í þægileg heimaföt eftir þrifin og eins og vanalega, ég mala og mala. Gjörsamlega með munnræpu eftir þögn dagsins. Segi frá hvað ég hafði afrekað að sauma í dag, bakað og hvað væri að frétta af facebook veggnum. Ég enda gjarnan ræpuna á því að spyrja hvað við ættum að hafa í matinn (annað en lax). Þá uppgötva ég að maðurinn minn, eins og steingerfingur, sat og horfði á sjónvarpið. Hann heyrir ekki. Hann sér ekki. Hann var kominn til Alsnægtarlands með Gosa og Tuma engisprettu. Ég gat allt eins verið að tala indversku. Hann heyrði kannski bara indversku, þar sem ég stóð á miðju stofugólfinu, í marglitum silki indverjabuxum, með klofið á milli hnjánna, í hvítum bol með handklæðatúrban á hausnum. Til að toppa útlitið var ég með smekklega og vel staðsetta rauða bólu á miðju enninu. Sem glóði eins og demantur. Ég steinþagnaði. Ekkert gan var af því að halda áfram að tala. ...við vegginn. Ég virti hann fyrir mér, þar sem hann sat sem steinrunninn og starði á sjónvarpið. Sennilega er meiri hreyfingu að sjá á facebook veggnum. Og þar fæ ég þó stundum viðbrögð....
Bloggar | 7.10.2010 | 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Það er ótúlegt til þess að hugsa að nú séu liðin 20 ár frá því að litli Kristófer Atli kom í heiminn svo fullkominn og fallegur. Frískur og kraftmikill. Ég 18 ára gömul og þóttist alveg klár í slaginn. Það væri fátt sem ég treysti mér ekki til að takast á við í hinu nýja hlutverki, að vera móðir. Ég væri nú ekki sú eina og alls ekki sú yngsta. Allstaðar í kring um mig voru ungar mæður. Og eldri mæður, með reynslu, svo engu var að kvíða.
Þegar maður er 18 ára heldur maður að maður geti allt. 38 ára gömul sé ég að ég hafði svo sem ekki á svo röngu að standa.
Að ganga með barnið og koma því í heiminn fannst mér ekkert svo erfitt, reyndar auðveldara en ég hafði ímyndað mér. Að fá loksins að halda á litla krílinu, sem hafði spriklað svo kröftuglega í bumbunni minni, var dásamlegt. Að gefa brjóst, pís of keik bleyjuskipti, næturbrölt og þvottastúss, óþarfi að tala um það. Fyrsta vikan gekk stórkostlega og átalaust fyrir sig. Við komum heim af sjúkrahúsinu og allt í lukkunnar velstandi. En þá fór að halla aðeins undan fæti. Litli kúturinn kominn með hita og ég, unga móðirin, sem gat allt, hringdi á hjúkkuna sem sagði mér að hafa ekki áhyggjur, þetta væri allt eðlilegt. Ég hugsaði að auðvitað hefði hún á réttu að standa. Konan með reynsluna hlyti að hafa á réttu að standa. Ég bara 18, þó ég gæti allt, vissi ég kannski ekki allt. Ég fór eftir ráðleggingum hjúkkunnar og ýtti áhyggjunum burt. Hitinn fór hækkandi og áhyggjurnar með og alltaf var sama svarið frá hjúkkunni; allt eðlilegt, hafðu ekki áhyggjur , gefðu honum stíl. Svona gekk þetta þangað til mér var nóg boðið og fór með drenginn til læknis, sem gaf honum lyf við útbrotum sem voru byrjuð að myndast og hita. Pensillín. Heim fór ég, með aðeins minni áhyggjur en áhyggjur samt. Ég náttúrulega bara 18 og kunni ekkert á svona lagað. Ástandið lagaðist ekkert og drengurinn var orðinn mjög veikur og heil vika liðin. Og þó ég væri bara 18 vissi ég að þetta gat ekki verið eðlilegt svo ég arka með drenginn upp á sjúkrahús og segi farir mínar ekki sléttar. Aðkomulæknir að sunnan tekur á móti okkur, ungu móðurinni og litla lasna drengnum. Við vorum send með næstu vél suður til Reykjavíkur og beint inn á Landsspítala. Þar sem syninum var kippt úr höndunum á mér og farið með eitthvert á bakvið og þar sem hann var skoðaður í bak og fyrir. Það sem óttast var mest, var að hann væri kominn með heilahimnubólgu. Næstum klukkustund síðar kom læknirinn fram og tilkynnti okkur að svo væri ekki en enga skyringu væri að finna á þessum veikindum svo nú væri ráð að leggja drenginn inn til rannsóknar. Mér var létt yfir heilahimnubólgufréttunum en var hrædd um að eitthvað annað kæmi upp, ekki síður ógnvænlegt. Eftir miklar rannsóknir næstu daga kom í ljós að drengurinn var blæðari. Það vantaði allt storknunarefni í blóðið. Einhver vírus eða veira hafði hreiðrað um sig en ekki væri hægt að komast að því hvort eða hvað væri vegna þess að hann hafði áður verið settur á pensillín sem kæmi í veg fyrir að hægt væri að rækta blóðsýnin. Þar sem ekki var vitað hvað væri var hann settur í einangrun á barna gjörgæsludeild. Þarna stóðum við, með fullt af svörum og enn fleiri spurningar. Ég var náttúrulega bara 18 ára og vissi akkúrat ekkert um þessi mál. En áfram stóð ég á mínum sterku beinum og baráttunni skyldi áfram haldið.
Mikill blóðvökvi hafði safnast inn á kviðarhol litla drengsins og þurfti því að setja brunn svo hægt væri að tappa af kviðarholinu reglulega. Ýmsum efnum var bætt í blóðið til að auka storknun, gerð voru blóðskipti þrisvar, ef ég man rétt og allt reynt til að bæta ástandið. Kviðurinn þandist út milli þess sem tappað var af. Útlitið var ekki gott. Fjölskyldur okkar voru nú komnar okkur foreldrunum til stuðnings. Sem betur fer, því ég var bara 18 og gat ekki allt, alveg ein. Nú gat brugðið til beggja vona svo drengurinn var skírður skemmri skírn. Og fékk nafnið Kristófer Atli. Svo fór, að allt fór á versta veg. Lungun gáfu undan blóðvökvanum í kviðarholinu. Hjartað hætti að ská.
Eitthvað sem 18 ára gamalli móður datt ekki til hugar að gæti gerst, gerðist. Á tuttugu og tveimur sólarhringum upplifði ég mestu gleði, mestu erfiðleika og mestu sorg sem nokkur móðir getur upplifað. Sama hve gömul eða ung hún er.
Framundan var erfiður tími með jarðarför,í fyrsta skipti á ævinni, spurningum og bið eftir svörum. Kaldur og dimmur vetur. Þökk sé móður minni gekk allt sem þurfti að ganga, eins og berserkur planaði hún og framkvæmdi og undirbjó jarðarför. Og stóð við hliðina á mér, sterk eins og klettur. Ég veit ekki hvað gerðist, en einhvern veginn stóð ég þetta af mér. Mannsheilinn er furðulegt fyrirbæri, hann deyfir mann og lætur mann gleyma. Enn þann dag í dag, man ég varla eftir jarðarförinni eða dögunum fyrir, eða dögunum og vikum eftir. Ég þurfti fylgd í kirkjugarðinn daginn eftir, því ég rataði ekki. Og mundi ekki hvar drengurinn minn var grafinn. Þarna var ég 18 ára og buguð af sorg. Og fannst ég ekki geta þetta.
En sagt er að tíminn lækni öll sár. Það er nokkuð til í því. Þó eftir sitji stórt ör, sem ég alltaf mun finna fyrir, þá stend ég enn. Og ég gat þetta. 18 ára gömul.
Þegar ég lít til baka, þá sé ég og ég held, að ég geti allt. Fyrst ég stóð þennan byl af mér og marga aðra sem á eftir komu. Svartnætti og þunglyndi. Þá þraukaði ég. Ég er sú menneskja sem ég er í dag vegna þessa. Sterkari og reynslunni ríkari.
Hönd þín snerti sálu okkar
Fótspor þín liggja um líf okkar allt.
Kristófer Atli Árnason
F. 3. Október 1990
D. 25. Október 1990
Tileinkað Írisi minni sem er að verða 18 ára og getur allt!
Bloggar | 4.10.2010 | 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Bloggar | 9.5.2010 | 02:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þrátt fyrir allt, er ég þakklát fyrir það sem ég hef....
... en fyrst og fremst takk útrásarvíkingar, takk bankamenn, takk ríkisstjórn og sérstakar þakkir fær fjármálaeftirlitið fyrir traust og ötult starf í þágu íslenskrar þjóðar!! Takk.
Bloggar | 12.4.2010 | 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggar | 11.4.2010 | 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hinsvegar sér hann Klaufabárðana sem ákaflega röggsama, duglega og mjööög handlagna viðgerðarmenn. Stjarfur situr hann og óspart hvetur áfram og býsnast í senn og áhyggjusvipinn má sjá og jafnvel heyra langar leiðir. Nú er svo komið að hann má ekki kústskaft sjá þá er hann farinn að banka í loftið eins og kluvaborðrnir. Ef slökkt er á sjónvarpinu slær hann fast ofan á það áhyggjufullur á svip og tilkynnir að sjónvarpið sé ónýtt. Sækir mig og saman lögum við, klaufabárðarnir á heimilinu, sjónvarpið með einu handtaki. Þá horfir hann á mig ábúðafullur á svip og segir kluvaborða mig þá tökumst við í hendur, leggjum saman olnbogana og sláum niður handleggnum, eins og klaufabárðarnir.
Það er eitthvað sem segir mér að drengurinn horfi kannski of oft á sjónverðið, en hver segir að það sé alfarið af hinu slæma??
Bloggar | 10.3.2010 | 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fjaðrafokið í kringum töluna ætlaði engan erndi að taka, hún var búin að sitja föst í slímugu nefinu í sex daga og útlitið ekki bjart! Rauð, meðalstór og myndarleg átti hún að tróna á toppi húfunnar í íslensku fánalitunum. Þar til hún var rifin á brott frá hinum tölunum af litlum kámugum fingrum Huga litla. Hann var snöggur til, hann hrifsaði töluna og hljóp inn í herbergið sitt. Þar settist hann á gólfið og skoðaði vandlega töluna í bak og fyrir. Honum leist vel á, svo vel að hann ákvað að prufa að sleikja hana ofurlítið. Mamma hans var marg búin að segja við hann að það væri bannað að setja dót í munninn og hann vissi það vel og gegndi því. Þess vegan lét hann sér nægja að sleikja pínu og skoða, sleikja pínu meira og Svo stakk hann henni upp í nefið sitt og ýtti á eftir með fingrinum svo hún stakkst á bólakaf inn í blaut og dimm nefgöngin. Mamma hans var ekki búin að banna honum að setja hluti í nefið svo það hlaut að vera í lagi. Eða hvað? Það þrengdi vel að tölunni og Hugi byrjaði að væla og tárast. Hann hljóp til mömmu sinnar með tárin í augunum og byrjaði að hnerra og hnerra. Mamman sat við saumavélina og vissi ekki að Hugi hafði tekið töluna. Hún hélt bara að Hugi væri að kvefast þangað til Hugi fór að gráta og ýtti tölunni enn lengra inn í nefið. Þá áttaði mamman sig og kíkti upp í nebbann og sá þá veslings töluna blasa við. En Hugi litli hafði ýtt henni svo langt inn að það var ekki nokkur leið að ná henni út. Aumingja Hugi, sat uppi með rauða tölu í nebbanum og mamman gat ekkert gert nema að fara með hann á spítalann og vonað að læknirinn gæti náð tölunni út. Það var komið kvöld á Grænlandi og myrkur. Og laugardagssteikin við það að verða tilbúin. Nú var ekkert annað í stöðunni en að slökkva á ofninum og saumavélinni og drífa sig niður á spítala. Þar tók á móti Huga vinaleg grænlensk hjúkka. Sem sagði Huga að leggjast á stóran bakteríufríann bekkinn. Svo sótti hún vasaljós ofan í skúffu og lýsti upp í nefið. Talan var farin að venjast myrkrinu og bleytunni varð um og ó að fá þetta skæra ljós á sig og vildi bara fá að sitja sem fastest. Hjúkkunni leist ekkert á blikuna, og hringdi í lækninn, sem var ný búinn að poppa og setja spólu í tækið. Tölunni til mikillar gleði nennti læknirinnn ekki að koma svo talan fékk að sitja sem fastast og Hugi sendur heim með öngulinn í rassinum og töluna í nebbanum. Honum var sagt að koma aftur næsta morgun, þá væri læknirinn við. Hugi hafði áður hitt lækninn í kaupfélaginu, hann var mjög undarlegur útlits, með grátt hárstrý í allar áttir, kolsvartur, með enn svartari rákir eftir endilöngum kinnunum. Hann kom ekki frá Grænlandi heldur frá svörtustu Afríku. Hann gaf Huga 20 danskar krónur og brosti sínu blíðasta svo skein í gular tennurnar. Hugi beitti sig kjarki og tók við krónunum skelfingu lostinn yfir þessum stórskrýtna manni. Það var því kannski ágætt að læknirinn vildi ekki koma upp á spítala því Hugi hefði orðið enn hræddari og guð má vita hvernig talan brygðist við þessari sýn þegar hún yrði dregin út í dagsbirtuna. Heim á leið héldu Hugi og talan, mamman og pabbinn þar sem laugarsdagssteikin beið í ofninum, vel elduð og tilbúin til átu.
Daginn eftir var Hugi hinn rólegasti og ekki laust við að talan væri örlítið sýnilegri. Mamman og pabbinn ákváðu því að bíða og sjá hvort talan gægðist ekki bara betur niður og gleymdi sér og dytti á endanum út. Dagurinn leið og talan passaði sig að fara ekki of neðarlega svo hún dytti ekki. Henni leið vel þarna í hlýjunni og bleytunni og vildi sig hvergi hreyfa. Henni var líka illa við birtuna þarna úti svo hún sat sem fastast. Þrátt fyrir hopp og skopp og óþekktarskap í Huga litla sat hún og sat og ákvað að stríða Huga sér til skemmtunar. Hún byrjaði að dilla sér og dansa svo Hugi ræfillinn táraðist og táraðist og á endanum fór hann að hnerra og hnerra með tilheyrandi hávaða og gusugangi. Við það bærðist talan og þrýstist neðar í nefgöngin. Þrumu og hnerra lostin náði talan taki og kom sér vel fyrir aðeins neðar í nebbanum og varð að sætta sig við ljósskímuna sem læddist inn um nasirnar á Huga. Talan dauðsá eftir þessum fíflagangi og hét því að gera þetta ekki aftur. Hún beitti öllum sínum kröftum til að komast ofar og innar í hlýjuna og notaði tækifærið á meðan Hugi svaf að læðast aftur á þann stað sem hún var áður og sat þar sem fastast. Talan hrökk upp með andfælum þegar Hugi hoppaði fram úr rúminu sínu. Það var kominn nýr dagur og nú skyldi haldið á spítalann og draga töluna út með valdi. Huga stóð ekki á sama þegar hann var teymdur inn í sama pyntingaherbergið og þarna um kvöldið. Þar tók á móti honum ósköp venjulegur danskur læknir í hvítum slopp og með hlustunarpípu um hálsinn. Hugi litli barðist um á hæl og hnakka þegar þessi brjálaði maður í sloppnum hélt honum niðri og lýsti upp í nefið á honum og augun svo tátin streymdu eins og stórfljót niður kinnarnar. Talan sat sem fyrr, á sínum stað og ætlaði sig ekki að gefa. Læknirinn slökkti á ljósinu, hristi hausinn og sagði að senda þyrfti Huga litla með þyrlu til Nuuk. Á sjúkrahús skyldi hann og þar skal svæfa drenginn og draga töluna út. Sigri hrósandi og myrkrinu fegin tók talan sigur dansinn og dillaði sér og sveiflaði en hélt sér þéttingsfast svo hún rúllaði ekki út. Með það var Hugi sendur heim til sín og við tók löng bið eftir símtali frá sjúkrahúsinu.
Tveir langir dagar liðu áður en símtalið kom. Nú var stefnan tekin á Nuuk með viðkomu í Nararsuak. Talan átti aldeilis ferðalag fyrir höndum umvafin Huga litla. Talan hafði það auðvitað gott og kvartaði ekki, annað mátti segja um veslings litla Hugann sem burðaðist hvert fótmál með tölufjandann í nebbanum. Þess þá heldur mátti leggja upp í langferð, sem byrjaði með þyrluflugi til Narsarsuak. Þegar þyrlan tók á loft og Hugi sá til jarðar varð hann logandi hræddur og kleip fast í hendina á mömmuni. Hann var feginn og glaður þegar hann lenti í Narsarsuak. Talan sem liggur í vellystingum í hávaða og hræðslufríu nefinu hafði ekki yfir neinu að kvarta og lét sér hvergi bregða. Hugi var heldur glaðari þegar hann fékk að taka strætó á hótelið. Á hótelinu hitti hann fullt af krökkum, sem hlupu og léku sér, hoppuðu og skoppuðu um hótelgangana. Hugi lét sitt ekki eftir liggja og hljóp eins og hann ætti lífið að leysa. Talan mátti hafa sig alla við að halda sér, við hamaganginn fór að leka meir og meir úr nebbanum og æ erfiðara fyrir töluna að halda velli. Á þrjóskunni hékk hún og var hvergi bangin og við það sat. Hún vissi ekki að á morgun væri stefnan tekin á Drottningarspítalann í Nuuk og þá væri voðinn vís, hún ætti ekki roð í verkfæri svæfingalæknanna og á endanum yrði hún rifin út með töngum og tólum í skerandi birtuna. Og hvað svo? Enn og aftur sneri lukkan tölunni í vil. Þegar Hugi litli vaknaði daginn eftir tilbúinn í flugferð til Nuuk var svartaþoka úti svo varla sást milli húsa. Ekki var gott útlitið og bar ekki á öðru en að Hugi fengi að dúsa eina nótt í viðbót í Narsarsuak. Og talan þar með. Eftir strætóferð á flugstöina og til baka aftur var það komið á hreint. Ekkert flug fyrr en seint næsta dag. Enn fagnaði talan. Hún dauð sá eftir að hafa ekki tekið með sér klappstýru dúska í fánalitunum til að getað fagnað með stæl! Hugi hins vegar græddi annan dag í hamagang og fjör og ekki annað að sjá að hann uni sér sæll og glaður með töluófreskjuna í nefinu. Næsti dagur heilsaði með sólargeislum í gegnum þokuna og sá ekki betur en að væri að létta til. Eftir mikla og hatramma baráttu þoku og sólar hafði sólin betur. Og á endanum hlammaði Hugi sér niður í flugvélinni degi á eftir áætlun. Loks kom að því að Hugi var lagður inn á spítalann. Eftir nokkur óþekktarköst og mikinn hamagang var hægt að klæða drenginn í náttföt og leggja hann í sjúkrarúmið. Talan var farin að segja til sín eftir sex daga dvöl í nebbanum. Hugi litli var orðinn lystalaus og kominn með hita. Þessi sambúð mátti varla vera mikið lengri. Eftir allskyns þukl, káf, viktun og mælingu var ákveðið að læknirinn myndi kíkja á Huga í bítið morguninn eftir. Klukkan sex þrjátíu næsta dag var Hugi vakinn og sendur í sturtu. Grút syfjaður og þreyttur stóð hann nötrandi og skjálfandi undir bununni á meðan talan stein svaf. Að því búnu var hann settur í allt of stóran hvítan náttkjól og plástraður í (handar)bak og fyrir og sveltur í þokkabót. Við tók að því er virtist endalaus bið. Hungrið og þorstinn var heldur betur farinn að segja til sín og aumingja Hugi gekk á milli krana og bað um vatn. Á meðan baðaði talan sig í mjúku og volgu nefslíminu og hafði það huggulegt. Loksins, eftir langa bið mætti háls nef og eyrna læknirinn á vakt. Huga var þá loks dröslað eftir löngum göngum inn á læknastofu og þess freistað að ná tölunni út án þess að svæfa litla ræfilinn. Hugi var alls ekki hress með þessa meðferð og spriklaði og öskraði eins og lífið væri að leysa. Talan var nú loks sannfærð um að Hugi væri hennar bandamaður og vildi ekki að hún yfirgæfi partýið. Það tísti í tölunni og hún undraði sig á þessu veseni og fjaðrafoki, hvers vegan í ósköpunum mátti hún ekki búa þarna? Talan hrökk upp frá þessum vangaveltum við að allt í einu var kominn ískaldur og blautur bómullarhnoðri upp að henni. Og ekki lyktaði hann vel. Fyrr en varði var hún orðin ringluð og dofin og í kringum hana sveimuðu bleikir fílar. Henni leið alveg óskaplega vel og hún var ekki frá því að öskrin hans Huga litla væru orðin að fuglasöng. Hugi litli barðist um, bálreiður við lækninn fyrir að vera að troða þessu blauta drasli upp í nebbann. Að lokum gafst lænirinn upp. Það verður að svæfa drenginn. Talan í banastuði hoppaði hæð sína fyrir að vinna enn eina viðureignina. Svo tók hún þrefalt heljarstökk þegar hún heyrði lækninn segja að best væri að gera það á mánudaginn. Hún var búin að græða tvo daga í viðbót. Það sló á gleðina þegar mamman tók til máls og sagði að það væri of langt að bíða, drengurinn væri orðinn lasinn og það væri búið að undirbúa hann fyrir svæfinguna og það skyldi standa. Gleðin rjátlaði af tölunni og við tók timburmennska og vanlíðan. Huga kitlaði í nefið og potaði I tíma og ótíma. Þetta var undarleg tilfinning að vera svona dofinn í nebbanum. Nú varð að bíða eina ferina enn eftir lokaákvörðun. Hugi svangur og þyrstur og talan slöpp og timbruð biðu nú eftir hvað verða vildi. Ekki leið á löngu þar til hjúkkan mætti með fréttirnar. Í svæfingu skal hann og það fljótt. Talan var auðvitað ekki par hrifin af þessari ákvörðun. Nú væri henni ekki lengur til setunnar boðið. Loks ran stundin upp. Huga var rúllað niður á neðri hæðina í rúminu sínu og mamman hélt þéttingsfast í hendina hans. Þegar í svæfingarstofuna kom var mamman sett í skó og slopp og forláta grænt ský sett á hausinn hennar. Hugi fékk líka svoleiðis og dúnmjúkan ísbjörn til að knúsa. Hugi var nú pínu hræddur við öll þessi tól og tæki og þetta sloppaklædda folk allt um kring sem bullaði tóma vitleysu í þokkabót. Ekki var laust við að talan væri örlítið smeik. Birtan í herberginu var slík að allt varð bleikt inni í nefinu og óttaðist hún aðra árás. Mamman faðmaði Huga litla að sér og hjúkkan lagði illa lyktandi og kalda grímu að vitum Huga. Hann var ekki ánægður með þesssa meðferð en fékk engu ráðið. Eftir að hafa andað nokkrum sinnum að sér þessu óþverra og illa lyktandi efni varð hann að játa sig hægt og rólega sigraðan. Hann ranghvolfdi augunum og þagnaði. Hann var steinsofnaður. Talan hafði nú fundið betri lykt um ævina og skildi ekkert hvaðan á sig stóð veðrið. Aftur fór hún að heyra þennan fugla söng og bleiku fílarnir mættu í öllu sínu veldi og svo varð allt svart. Hugi rankaði við sér skömmu síðar í rúminu sínu með ísbjörninn og skýið. Nú fékk hann að upplífa timburmennskuna sem talan fékk áður að prufa. Honum leið ekki vel og varð alveg bálreiður við mömmu sína fyrir að leggja þetta á hann. Hvaða mömmur gera svona lagað? Eftir langt og strangt reiðikast gat hann ekki meir og sofnaði. Seinna um daginn vaknaði hann kátur og hress og feginn að vera laus við töluna. Og auk þess ekki svo margir dagar þangað til hann gæti lagt upp í langferð aftur heim. Talan hins vegar hefur mátt muna fífil sinn fegurri. Eftir að hafa verið kroppuð út með ískaldri og oddhvassri tönginni og svift með látum út í æpandi birtuna var henni skellt ofan í lítið álform. Þar var hún látin dúsa eins og hver önnur tala. Öll út bíuð í blóðugt nefslímið og horslummu. Hún óttaðist að dagar hennar væru taldir. Að henni yrði hent í ruslið og urðuð með botnlöngum og kúkableyjum af sjúkrahúsinu. Það eru ekki þau örlög sem hún óskaði sér. Því var ekki að heilsa. Mamman tók töluna með sér í beygluðu álforminu og setti ofan í tösku. Þar skal hún bíða sinna örlaga, sem skraut í ramma. Og minnisvarði um ferðalagið ógurlega sem ætlaði seint endi að taka .
Köttur útí mýri, setti upp á sig stýri, úti er ævintýri . Eða hvað??
Bloggar | 7.10.2009 | 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fermingardagur í Nanortalik, Elín og pabbi hennar í grænlensku þjóðbúning.
Gamli bærinn í Nanortalik sem nú er safn.
Hendi svo inn fleiri myndum við betra tækifæri...
Bloggar | 8.7.2009 | 02:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Tenglar
Mínir tenglar
- Nanortalik -Grænland blogg frá grænlandi
- Árgangur 1972 Skemmtilegur árgangur
- Fréttir úr Fjarðarstræti Hér fáum við að vita hvað litla og stóa eru að bralla
- Áslaug Inga Barðadóttir skartgripir
- ljósmyndir flinkur og sætur ljósmyndari
Veðrið í Nanortalik grænland
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar