Grænlenskar grundir

Að vakna hér í Nanortalik á hverjum morgni og fá að upplifa kyrrðina og fegurðina eru forréttindi. Hér líður tíminn hægar enn annarsstaðar gengur og gerist. Maður bókstaflega hefur allan tíman í veröldinni til að gera allt í veröldinni, en samt nægur tími eftir. Hér eru allir eitthvað svo vingjarnlegir og glaðlegir. Þegar maður gengur í gegnum þorpið heilsa flest allir með bros á vör eða í það minnsta kinka kolli. Og er því nóg að gera í að heilsa og brosa á móti, því hér er eins og alltaf sé þjóðhátíðardagurinn. Fullur bær af brosandi og glöðu fólki, þó flestir ef ekki allir hafa einhverja sorgar sögu að geyma í sínu hjarta.  Það kom á óvart hvað bærinn er stór og hér eru svo margar götur að nýbúi eins og ég getur alveg tapað áttum og hreinlega villst. Húsin eru misjöfn að gerð, lögum og litum eins og þau eru mörg. Öll mjög falleg og sjarmerandi á sinn hátt þó ekki fari mikið fyrir görðum og gróðri. Gamli bærinn minnir óneitanlega á neðsta kaupstað á Ísafirði, lágreist hús með litlum gluggum niðri við sjóinn. En stórir og tignarlegir ísjakarnir minna mig á að ég er stödd á Grænlandi og hætti því að leita að Magga Hauks og ilminum úr eldhúsinu í tjöruhúsinu. Búðirnar hérna eru í einu orði sagt frábærar! Hér er að finna típíska túristabúð með skinni og skinnvörum og ýmsum grænlenskum minjagripum, sportbúð, tvær stórar matvörubúðir (Bónus og Krónan) og að ógleymdum Aja og Brinu. Aja selur föt, gjafavöru, blautbúninga og sælgæti og Brina selur nánast allt milli himins og jarðar. Allt frá brjóstsykri í stykkjatali að reiðhjólum, nærföt, barnaföt, snyrtivörur, brúðarkjóla, gólfmottur og gerviblóm. Brina er búðin! Brina selur allt!  Hér skortir ekkert og lítils að sakna að heiman fyrir utan fjölskyldu og vina. Við höfum þó eignast góða vini og nágranna svo okkur þarf ekki að leiðast. Og svo eru hér tveir málarar frá Íslandi sem eru að mála húsin í hverfinu okkar og við hittumst á hverjum degi og borðum saman í fína nýja húsinu mínu. Í nýja fína hverfinu mínu.

 Við höfum að sjálfsögðu reynt að hafa hlutina sem heimilislegasta og kostur er. Með því að “skýra” hina ýmsu bæjarhluta eftir hverfum og götum heima á íslandi eða öðrum þekktum nöfnum. Hér má finna Fellin, Neðsta og Ægissíðuna sem málararnir búa við og svona má lengi telja. Reyndar er ein gata hér í hverfinu sem heitir Ísafjarðardjúp og óþarfi að skýra það upp á nýtt. Síðast en ekki síst má finna Arnarnesið þar sem ég bý, fína hverfið, þar sem hafnarstjórinn, lögreglustjórinn, lögreglumaðurinn, bæjartæknifræðingurinn (Lúther) og íþróttaálfurinn búa. En þar sem hverfið er staðsett upp á hæð, undir lítilli fjallshlíð og hefur ekki götunöfn, eldur númer kýs ég að kalla það Hollywood Hills. Og hvað er betra en að vera húsmóðir í Hollywood Hills.

  

Sigling um Grænlensk sund

Ég þurfti að klípa mig öðru hvoru þegar við sigldum í gær. Hér er allt svo óraunverulegt og svo óraunverulega fallegt. Við sigldum á eyjuna Angmalortoq og tók ferðin þangað rétt rúman klukkutíma. Hugi svaf í vagninum og hafði það huggó á meðan við tókum stórsvigið á milli risastórra ísjakanna. Ég verð að viðurkenna að ég var á köflum pínu hrædd. Mér fannst við fara svo hratt og ísinn út um allt, en ekkert var að óttast því þarna var vanur maður á ferð, sjálfur hafnarstjórinn og nágranni okkar.
Ég get auðvitað ekki sagt frá náttúrufegurðinni ógrátandi, þetta var bara fáránlegt. Ísjakar eins og 5 hæða blokkir og jafnvel heilu raðhúsin eða íbúðarhverfi, og hallir eins og í ævintýrunum römmuð inn í háa og gráa fjallgarðana. Sjórinn spegilsléttur eins og í góðu logni á ísafirði og svo hreinn og tær að vel var hægt að sjá niður eftir ísjökunum. Stundum var eins og við værum að sigla norður á strandir en svo komu inn á milli allt allt öðsuvísi fjöll með margs lags berglögum í öllum regnbogans litum. Við forum framjá fjalli þar sem myndast hefur eins og þrjár teskeiðar í bergið og heitir fjallið eftir því. Mér fannst líka ótrúlegt að sjá yfirgefin hús og kirkju þarna í miðjum óbyggðum. Draugahús sem höfðu verið yfirgefin fyrir tugum ára rétt eins og á íslandi. Ósjálfrátt skimuðum við eftir ísbjörnum en grænlendingurinn og granninn hló bara að okkur. En við sáum þó einn og einn sel bregða fyrir. Og nokkra selveiðimenn, sem jafnvel sofa í litlum kofum í fjöruborðinu á meðan selveiðarnar eru stundaðar.
Þegar við komum í land var aðeins byrjað að rigna. En það var hlýtt þrátt fyrir nálægð íssins. Stefnan var tekin á heitu laugarnar sem eru á þessari eyju. Með í för var Danskur strákur búsettur í Nuuk og er að vinna einhverja rannsóknarvinnu í sambandi við laugarnar. Íris dýfði sér að sjálfsögðu ofaní og Daninn sem við köllum Jesú frá Nuuk skellti sér á brókinni með. Á meðan þau böðuðu sig rölti ég yfir á hinn endann á eyjunni og þar blöstu að sjálfsögðu við stórir ísjakar og há fjöllin á meginlandinu. Þögnin var ólýsanleg og niðurinn í ísjökunum og fossar í fjarlægð spiluðu undir. Ég hélt ég hefði dáið og farið til himna, þetta var svo dásamlegt.


Flutt til Grænlands

Þá erum við lent og búin að sofa eina nótt hér í Nanortalik. Ferðin gekk vel þrátt fyrir smá byrjunarörðuleika á flugvellinum. Það hafði víst gleymst að borga flugmiðana okkar en því var reddað í tæka tíð fyrir flug. Grænlenska kommúnan með allt á hreinu..
Flugið tók rétt tæpa 3 tíma og við fengum mjög gott veður og heiðskýrt nánast alla leið. Það var ólýsanlega fallegt að sjá stórbrotið og hrikalegt landslagið, og jökullinn breiðir endalaust úr sér og fjallatopparnir teygðu sig uppúr annað slagið. Svo lækkuðum við flugið ofan í jökulinn og beigðum inn í þröngan og djúpan dal og flugum eftir honum í dágóða stund áður en við komum allt í einu í opið fjarðar mynnið. Þar tók við allt öðruvísi landslag, og sjórinn með ísjökum og bátum út um allt, gróður í hlíðunum hús og folk. Þetta minnti mig á svæðið við flókalund en þó allt öðruvísi. Þarna vorum við lent í Narsassuaq sem er gamall herflugvöllur. Þarna er mikil flugumferð og þyrlur að koma og fara með reglulegu millibili. Við þurftum að bíða í rúma 2 tíma eftir þyrlunni. Sem var að vissu leyti ágætt því Hugi þurfti á því að halda að fá að hreyfa sig og hlaupa um. Þarna er hinn fínasti leikvöllur og mikið um gröfur og skrítna bíla á ferð. Við röltum svolítið um og skoðuðum byggðina og kíktum á gamlar stríðsminjar. Það var svolítið kalt þar sem ísröndin er ekki langt undan og henni fylgir kalt þokiloft. Ísinn hefur ekki verið svo seint á ferð svo elstu menn muna en vonandi hverfur hann fljótt og þá fáum við hlýtt og gott sumar.
Það var frábær upplifun að fara í þyrlu. Mikill hávaði og ótrúlegt að fljúga bara beint upp í loft. Hugi sat sem steinrunninn, annað en í fokkernum frá Íslandi; og starði út um gluggana.. Við horfðum út með tárin í augunum yfir þessu ótrúlega landslagi, djúpir firðir og dalir, og ísjakar eins og skemmtiferðaskip í allar áttir, hreint ógleymanlegt. Við millilentum í Quaqortoq sem er höfuðstaður suður Grænlands. Og flugið þangað tók um 20 mín. Ekki minkaði nú fegurðin þegar þangað var komuð, hamingjan sanna. Húsin í öllum regnbogans litum upp í snarbatta fjallshlíðina. og niður í fjöru þar sem ísjakarnir tóku við. Ótrúlegt!! Svo var haldið áfram til Nanortalik. Flugið þangað tók um 25 min. Auðvitað endurtekur sagan sig, tár í augum yfir fegurðinni og ekki laust við smá spenning og eftirvæntingu að fa að sjá heimabæinn sinn til næstu þriggja ára kannski, og langt og strangt ferðalag og búseta í ferðtöskum að baki. Svo ekki sé talað um að hitta Lútherinn loksins eftir laaaanga fjarveru. Hugi var ofsa glaður þegar hann hitti pabba sinn. Og æstur eftir þyrluflugið og feginn að fá að hreyfa sig og hoppa.
Það kom mér á óvart hvað bærinn er stór og margar götur. Við forum að sjálfsögðu í bíltúr um bæjinn á vinnubílnum hans Lúthers sem er líka notaður sem líkbíll góðann gaginn. Þetta er mjög fallegur og gamall bær og gaman að sjá loksins með eigin augum. Við kíktum á nýja húsið okkar sem við fáum afhent í dag. Það er stórt og fínt og er í nýju hverfi í bæjarjaðrinum. Þarna búa sko hafnarstjórinn, bæjarstjórinn hótelstjórinn og lögreglustjórinn, svo við búum með elítu bæjarfélagssins þarna í Beverly hills. Við enduðum svo daginn í matarboði hjá yfirmanni Lúthers í næstu götu, honum Nonna rass (jóni rassmussen) og konu hans Valborgu sem Hugi kýs að kalla gabaka = skjaldbaka. Það var ósköp notarlegt en enn betra var að komast “heim á hotel herbergi þar sem við gístum í nótt og komast í bað og leyfa Huga að setja saman fína Cars þríhjólið sem við keyptum áður en við yfirgáfum landið. Og nú hjólar hann út í eitt…
En nú höfum við verk að vinna. Gámurinn er kominn svo best að fara að hreiðra um sig á Grænlandi…


Sönn saga

 Ég heyrði alveg ótrúlega krassandi og skemmtilega sögu um daginn. Af alíslenskum klæðaskiptingahóp. Karlmenn á misjöfnum, miðjum aldri, úr ýmsum stéttum þjóðfélagsins, giftir sem ógiftir. Hittast reglulega og fara saman í svokallaðar “veiðiferðir”. þeir renna glaðir í bragði útfyrir borgina drekkhlaðnir tilheyrandi farangri og drykkjarföngum. Ýmist leigja þeir sér bústað eða bóka sig á Mótel Venus eina helgi og klæða sig uppá í kjóla, nælonsokka og háa hæla. Hárkollur, augnahár, meiköpp og brasillían tan. Svona skreppa þær svo í bæinn og hella sér út í næturlífið og þræða barina. Svo kvenlegir og lokkandi eru þeir að karlpeningurinn sogast að þeim eins og mýflugur að hrossataði og heilu kvöldin drekka “þær” frítt. Svo er haldið aftur heim í bústað, tekinn bjútíslíp og haldið áfram næsta dag. Og aldrei detta þeir úr karakter. Svo heita þeir að sjálfsögðu nöfnum eins og Sandra, Tinna, Tobba og Dísa og ýmsum kvenlegum og kjút nöfnum.   Að sjálfsögðu er þetta mjög lokaður og einangraður hópur og engum utanaðkomandi hleypt inn svo ekki spyrjist út hverjir tilheyra þessum hópi. Þetta berst í tal í ákveðnum hóp sem ég umgengst öðru hvoru, vegna þess að ein úr hópnum á vinkonu sem var gift einum úr klæðaskiptinga-hópnum. Og þá kom í ljós að annar úr hópnum þekkir líka til í þessum hóp og hefur hitt dömurnar án þess að vita hvaða karlmenn eru á bak við þær.   Upp úr þessum umræðum spruttu margar spurningar og vangaveltur. Hvernig er hægt að halda þessu leyndu? Eru íslenskir karlmenn svona drukknir á öldurhúsunum að þeir átta sig ekki á að þeir séu að reyna við karlmenn? Þetta eru ekki hommar, þeir eru flestir giftir og eiga börn. Taka konurnar ekki eftir þegar eiginmaðurinn kemur heim úr veiðiferð, mjúkur sem barnsrass, rakaður á fótum og bringu. Hoppa þeir um berrassaðir með svuntu og fjaðrakúst í bústaðnum.....? Á meðan þessar spurningar brunnu á okkar hlæjandi vörum fór ég að pæla í veiðiferðum mannsins míns... Þær eru nokkrar á ári.... með nokkrum góðum vinum..... Mikill farangur tekinn með... oftast yfir helgi..... hmmm.... og í ofanálag... taka þeir alltaf með sér make up remover....

 Lúther, Tobbi, Örn og Hemmi...? Sandra, Tobba, Tinna ,Dísa....?

Maður spyr sig  ;)


...Og meira af Grænlandi

  Nú er elskhuginn búinn að vera á Grænlandi í rúmar tvær vikur og líkar vel. Reyndar bara hæst ánægður með lífið á Grænlenskri grund. Enda annálaður veiðimaður og ofvirkur náttúruunnandi í ofanálag. Með hrikalega náttúruna í bakgarðinum og byssuna rétt innan seilingar hefur hann ekki yfir neinu að kvarta. Og til að bæta ofan á gleðina eru staddir í þorpinu þrír íslenskir smiðir á svipuðum aldri og með sömu áhugamál. Sem sagt nett ofvirkir byssuglaðir göngugarpar í föðurlandi og flíspeysu. Gæti ekki verið betra..  Annars leggst vinnan vel í hann og lítur út fyrir að vera nokkuð fjölbreitt þar sem hann á að sjá um eignir bæjarfélagsins Nanortalik sem telur 6 þorp og bæi og í byggðarlaginu búa ca 2500 manns. Svo hann mun þurfa að ferðast svolítið á milli staða. Vinnudagurinn er frá 8-4, svo þetta er nánast eins og að vinna bara hálfann daginn. Mjög danskt og fjölskylduvænt. Ég hlakka mikið til að flytja þarna út og upplifa eitthvað alveg nýtt.  Þarna eru allt önnur gildi, ekkert kapphlaup við tímann eða tískuna. Ekkert stress. Engin yfirvinna. Nægur tími með fjölskyldunni og kannski tími til að gera eitthvað annað en vinna, sofa, borða...mata, skeina og skrúbba.. Ég verð að viðurkenna að mér leist ekkert á blikuna þegar  Lúther spurði mig hvort ég vildi flytja til Grænlands. Ég sá fyrir mér ,eins og kannski flestir sem ekki þekkja til, lítið afskekkt þorp, allt á kafi í snjó og blindfulla tannlausa grænlendinga rúllandi um þorpið með buxurnar á hælunum.  En svo fórum við að skoða málið betur þá kom ýmislegt spennandi í ljós. Bærinn minnir svolítið á Ísafjörð og það er gaman frá því að segja að Nanortalik er vinabær Ísafjarðar. Þarna eru búsettir danir, færeyingar og grænlendingar í bland og er svolítið danskur bragur á bænum. Þarna er allt til alls, skóli, leikskóli, heilsugæsla og sjúkrahús matvörubúðir, fatabúð og gjafa og minjagripabúð, hótel, veitingastaður, kjöt og fiskmarkaður og svona má lengi telja. Og er jafnvel meira vöru úrval en á Ísafirði ef eitthvað er.  Þetta er mikill ferðamannabær og stoppa skemmtiferðaskip þarna á sumrin á leið sinni norður um höf. Atvinnumöguleikar fyrir mig eru ágætir þó ég fari kannski ekki í blóma eða útstillingabransan. Þá er ýmislegt hægt að finna sér til dundurs og jafnvel gera að atvinnu minni. Ég sá strax að þarna var kannski komið tækifæri til að nota pennann meira og  gerast rithöfundur í eitt skipti fyrir öll. Haldið ykkur bara, aldrei að vita nema ég blandi mér í jólabókaflóðið á næsta ári. Svo hafa komið upp ótal skemmtilegar hugmyndir sem ég segi ykkur frá í næstu bloggum. Og ég lofa að standa mig betur í skrifunum og leyfi ykkur að fylgjast með. Endilega að koma með komment og spurningar... Ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en birtist hér von bráðar aftur.  Grænlenska grasekkjan.   

...


Að gefa skít í sjónvarpsdagskránna

 Aldrei hélt ég að það ætti fyrir mér að liggja að blogga um sjónvarpsdagskránna á laugardagskvöldi. En það er nú öðru nær. Hér sit ég og læt móðan mása í stað þess að hundskast inn í rúm með góða bók. Og kúra hjá herra hlaupabólu 2008 og vera tilbúin í slaginn ef strjúka þarf bak eða bumbu þakin bólum. Litli kallin er eins og gatasigti. Með bólu við bólu hátt og lágt. Og engir líkamspartar undanskyldir. Meira að segja litla typpið sleppur ekki svo vel. Það var mitt fyrsta verk í morgun að rífa af honum bleyjuna og leyfa honum að göslast svolítið bleyjulaus og viðra litla bossann. Tók hann því fagnandi og hljóp hér um íbúðina eins og blaðra að hleypa út lofti og skríkti og hló. Ég var hin rólegasta og fylgdist með honum með öðru auganu á meðan ég sinnti hinum ýmsu húsverkum. Án þess þó að elta drenginn milli herbergja. En svo tók ég eftir því að hann dvaldi helst til lengi og hljóðlaus í stofunni svo ég ákvað að athuga með hann, vitandi hve uppátækjasamur hann er orðinn og bjóst við að finna hann jafn vel uppí efstu hillu eða uppí gluggakistu.  Þegar ég kíki fyrir stofu hornið sé ég undarlegan svip á syninum, þar sem hann stendur í sófanum og starir á mig  ákveðinn, með kringlótt svarbrún augun, stút á munninum og hreyfir sig hvergi. Ég hugsa með mér að nú sé eitthvað að gerast sem oftast á sér ekki stað í stofusófanum. Stekk af stað og sé fyrir mér stórann poll við fæturna á honum, en svo var ekki.  Þegar betur var að gáð sá ég  brúnan hlunk gægjast út á milli rasskinnanna, æðandi á ógnarhraða með stefnuna á ljósa sófasetuna. Þá voru góð ráð dýr. Ég teygi mig, hratt og örugglega í átt að stofuborðinu og hrifsa til mín, það sem hendi var næst. Sjónvarpsdagskránna. Með snerpu og ákveðni næ ég, á síðustu stundu, að smeygja bleðlinum undir þann brúna. Og bjarga þar með sjónvarps og gestasófanum frá blygðun og smán. En dagskráin fékk það óþvegið!

Alltaf hlæjandi...

 Má til með að deila þesu með ykkur....

Ég hlæ í hvert skipti sem ég horfi á þetta

 

 

 

 

 


Lítið fréttabréf

Það hafa mörg vötn runnið til sjávar síðan síðast. Og ótrúlega margt skemmtilegt gerst og ekki minna um að vera framundan. Einkasonurinn að verða 17 mánaða. Hárprúður og vel tenntur með afbrigðum. Hleypur um brosandi og hlæjandi með ljósu lokkana og stóru brúnu augun sín og dansar eins og  dillandi jólasveinn með mjaðmahnykki eins og Elvis Presley. Heimtar mússikk í tíma og ótíma, talar og leikur listir sínar eins og apaköttur í fjölleikahúsi. Hér á bæ eru tekin bakföll af hlátri á hverjum degi yfir uppátækjum sonarins og linnir ekki látum.

  

 Unglingsstúlkan og litla ljóskan mín orðin 16. Já, segi ég og skrifa, 16!! Farin að læra á bíl og komin í bullandi bisniss með hárspangir og hannyrðir. Ætlar að þenja raddböndin í söngleik í skólanum enda syngur hún eins og engill. Duglega stelpan.

 .

 Elskhuginn, einnig vel tenntur og hárprúður, missir vinnuna sína um næstkomandi mánaðamót. Einn af nokkur hundruð manna og kvenna úr byggingabransanum, svo ekki er um auðugan garð að grisja  í atvinnumálum hér á landi. Hann sótti um starf byggingafulltrúa vesturbyggðar á Patreksfirði og lagðist það vel í fjölskylduna og var húsmóðirin búin að mála ofsa rómantískt og fallegt málverk í huganum, af búsetu vestur á fjörðum þar sem sólin skein á sveitabæinn, geitur jarmandi í haga og hænur á vappi í túnfætinum með einkasoninn á hælunum. En allt kom fyrir ekki og annar var ráðinn í starfið. Eyddum við eins og hálfri kvöldstund með skeifu, hökuna ofan í bringu og krosslagðar hendur og svekktum okkur á því. En áttuðum okkur fljótt að annað og stærra tækifæri biði handan við hornið. Áfram hélt hann að sækja um störf vítt og breitt um heiminn. Hann réðist ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og sótti meðal annars um starf  á landinu græna, GRÆNLANDI. Og nú, gott fólk, nær og fjær. Við förum ekki mjög langt út fyrir rammann á fína málverkinu. Við erum á leið til Grænlands. Aðeins 200 sjómílum lengra en Patreksfjörður.

..nánar síðar..

  

Glimmerkrepputíð

Langt síðan ég hef bloggað. En nóg um það..........  Mér finnst eins og ég hafa bara deplað auga og jólin koma aftur æðandi að eins og óð fluga. Ég er ekki fyrr búin að hreinsa glimmerið úr rúminu mínu, baðflísunum og hársverðinum þegar þetta er byrjað aftur.

 Þó það sé enn bara október þá eru jólin að læðast inn í blómaval og ég er byrjuð að undirbúa jólagluggana. Ég held ég hafi varla tekið upp einn einasta hlut úr kössunum í ár nema að það sé út atað í glimmer. Glimmer í öllum regnbogans jólalitum og við vitum öll hvar það mun allt saman enda. Í rúminu mínu, hárinu, gólfinu, börnunum mínum og manninum mínum. Þegar ég hátta mig á kvöldin tel ég auðvitað að ég sé búin að dusta af mér öll herlegheitin, en það er rangur misskilningur. Ég dett inn í einhvern ævintýra heim þar sem glimmer þyrlast upp í hvert sinn er ég tíni af mér einhverja spjör. Bolurinn: hviss... buxurnar: hviss... sokkarnir: hviss................  hip hip hip barbabrella. 

Ég ætti kannski að fá mér aukavinnu á súlustað, það hæfir kannski betur útganginum á mér þessa dagana. Og þá nær maður kannski endum saman í glimmer og krepputíð.....  

Til hamingju!!

Jebb til hamingju lilli bró með árin 30 og til hamingju með litlu sætu krúsídúllu. Þú ert alveg að ná mér í aldri og barnafjöld.

 

 

...Og til hamingju ég, með að ruslast loks til að setja inn eins og eina færslu... Ef færslu skyldi kalla..

Gengdarlaus leti..     ....svei.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband