Færsluflokkur: Bloggar
Ja nú versnar í því, sit hér úti í sólinni og fórnaði sjóngleraugunum fyrir sólgleraugu. Skrifa á fínu fartölvu elskhugans sem er með svona hundrað sinnum smærra letri en frúartölvan inni á borði. Ég held það borgi sig að sitja með bakið í sólina svo ég verði ekki eins og svarthvít hansagardína í framan eftir að rýna rangeygð í nettan tölvuskjáinn.
Á meðan þessi orð eru skrifuð er herra Brasilíus Krúsilíus Lúthersson Heiðrúnarson að dunda sér við að borða sheriosið sem datt í grasið þegar hann borðaði hádegismatinn, hafragraut með epla og perubragði með sherios ívafi. Á misjöfnu þrífast börnin best er mér sagt og við lifum samkvæmt því. Drengurinn er búinn að vera að brasa úti í garði upp á hvern einasta dag síðustu vikur og varla mátt vera að því að borða eða sofa. Þegar hann vaknar skríður hann út að svalahurð og bankar og kallar og vill komast út, svo þegar ég færi hann inn á hol aftur, vælir hann og færir sig að útidyrahurðinni og leikur sama leikinn þar. Hann vill komast út! Og það strax! Litli útipúkinn..En svona höfum við eytt okkar dögum undanfarið, úti í garði á éta gras og einstaka sóley fær að fljóta með. Hann veit alveg að það er bannað, því þegar hann slítur upp eina sóley lítur hann á mig sposkur á svip, hristir hausinn og hendir henni frá sér og fær sér aðra og stingur upp í sig. Hann er svo duglegur, rétt rúmlega níu mánaða. Ekki nóg með að vera farinn að standa allsstaðar upp og ganga meðfram er hann að myndast við að tala nokkur orð eins og mamma, babba, datt ofl. Svo vinkar hann og segir babbabb.Í gær þegar ég spurði hann hvar Íris væri og við kölluðum á hana sagði hann svo vel mátti greina Íris. Hér er greinilega undrabarn á ferð :)
Þann 17 júní brugðum við undir okkur betri fætinum og snöruðum okkur upp á Akranes og réttum okkar kæru vinum Addý og Gylfa hjálpar hönd (betri höndina að sjálfsögðu) við húsbygginguna. Og vorum við á betrihnjánum við að flísaleggja bílskúrinn svo þau geti flutt inn í hann sem fyrst. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema að sjálfsögðu tókum við litla snillinginn með og allar tilheyrandi græjur, svo sem nesti, bleyjur, vagn, og göngugrind svo hann gæti eitthvað hreyft sig því ekki er hægt að láta drenginn ryksuga og skúra steypugólfið. Í þessari líka bongó blíðu var hann að mestu úti á plani að leika við Baldur Frey, son þeirra hjóna á Klöpp. Við mikla kátínu sat hann þar í göngugrindinni góðu með allskonar dót og þessa flottu gasblöðru af Svamp Sveins ætt þar til hún dó drottni sínum. Svo lyftist heldur betur brúnin þegar Sölvi, verðandi nágranni, og vinur Baldurs mætti á svæðið. Þá skríkti litli snillingur og spændi upp planið af gleði þangað til stóru strákarnir hurfu út á götu og eftir sat Hugi einn og yfirgefinn, fastur í mölinni. Þá voru góð ráð dýr og allur kraftur settur í að komast á eftir þeim, en ekkert gerðist fyrr en mamma kom til hjálpar og ýtti kauða út á götuna. Í göngugrindinni æddi hann fram og til baka, hring eftir hring upp og niður götuna með hendur á lofti, skríkjandi og hlæjandi. Ekki varð dagurinn leiðinlegri þegar félagarnir mættu á rafmagnsbíl af bestu gerð og þustu um malbikið og Hugi, eins og riddari götunnar, elti þá á sinni fótknúnu köflóttu göngugrind stoltur og hreykinn.
Bloggar | 21.6.2008 | 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Bloggar | 6.6.2008 | 01:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Það var aldrei meiningin að nota þessa bloggsíðu til annars en að skrifa skemmtilegar litlar sögur úr okkar daglega lífi en ekki að hýsa mínar pólitísku skoðanir, eins ó-pólitísk ég er. En nú er mér nóg boðið!
Þannig er að unglingsstúlkan mín sótti um í unglingavinnunni á Ísafirði og bjuggumst við við að þar fengi hún vinnu eins og síðasta sumar.
Þegar móðir mín trítlaði á bæjarskrifstofuna með umsóknina hitti hún bæjarstjórann á förnum vegi og spurði hann hvort fengju ekki allir unglingar vinnu?? Jú að sjálfsögðu var svarið, og nefndi hún dóttur mína sérstaklega vegna þess, eins og þið vitið, búum við ekki lengur á Ísafirði. Jú jú, ég veit allt um hennar hagi, auðvitað fær hún vinnu.
Í þau fimm ár sem við höfum verið búsettar í Reykjavík hefur stelpan farið með fyrstu vél vestur, í öllum fríum og dvalið þar hjá ömmu sinni og afa og nú síðustu ár hjá ömmu sinni og verið henni félagsskapur, stoð og stytta. Helst af öllu vill hún búa þarna og vera öllum stundum og talar um að fara vestur strax eftir grunnskóla og fara svo í menntaskólann á ísafirði um haustið. Ég skil hana vel vegna þess að ég veit hvað það er gott og gaman að vera unglingur á ísafirði og ég tel það forréttindi að fá að hafa alist þar upp. Og þetta vil ég alls ekki taka af henni og hef þess vegna með glöðu geði, leyft henni að fara vestur eins oft og kostur er og styð hana í því sem hún vill gera.
Umsóknin var varla lent á skrifborði skóla og fjölskylduskrifstofu þegar hringt var til móður minnar og henni tilkynnt að það væri ekki til siðs að ráða börn sem ekki hafa lögheimili í bæjarfélaginu.
Gott og vel, en við höfum nú þegar fordæmi fyrir því að svo er ekki, stelpan var að vinna í unglingavinnunni síðasta sumar og ekki vitum við til þess að það hafi skapað nein vandræði eða leiðindi. Og það sem meira er við vitum um eina ágæta stúlku sem hefur þegar fengið vinnu í unglingavinnunni og er ekki búsett á ísafirði, né foreldrar hennar. Er ég mjög ánægð fyrir hennar hönd og vona ég að þessi skrif mín skaði hana og hennar fjölskyldu á nokkurn hátt ekki neitt.
.
En það sem pirrar mig mest og ég er reiðust yfir er það að ég og maðurinn minn eigum bæði eignir í Ísafjarðarbæ, ég 50% hlut í blómabúðinni og hann íbúð í miðbænum og borgum þar af leiðandi skatta og gjöld til bæjarfélagsins sem dekka klárlega þau lágu laun sem einn unglingur fær í laun yfir sumartímann. Mér er skapi næst að loka búllunni og flytja hana til reykjavíkur og reka hana þar, verst þykir mér að helv.. íbúðin er svo pikkföst að ekki er nokkur leið að flytja hana!
En burtséð frá þessu öllu saman er mér spurn, er það stefna bæjaryfirvalda að sjá til þess að unglingar, sem vilja sækja sitt bæjarfélag heim og stefna á nám þar í framtíðinni, fái ekki vinnu og þar afleiðandi missa tengsl og áhuga á að koma aftur heim?
Bloggar | 28.5.2008 | 14:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Já, kona sem drekkur aðeins milli 17 og 19 tvisvar til þrisvar í mánuði og eina hreyfingin eru göngutúrar um hlíðarnar, bleyjuskipti og smá tjútt við húsverkin, með uppsett hárið og varalit. Er farin að slefa í stofusófann yfir sjónvarpinu upp úr kl 9 á kvöldin, þarf að jafna sig!
En helgin var í einu orði sagt og á góðri íslensku GEGTSKETTLEG !!( Fyrir utan að fá seint í kladdann hjá henni Þóru á hún örugglega eftir að strika undir með rauðu núna.. :/ )
En það var ástæða fyrir því að ég kom seint til þóru á laugardaginn. Ég breytti kannski ekkert svo út af vananum. Við hittumst náttúrulega kl 19 á föstudaginn, ég og rest af tvítugum gagnfræðingum, á torginu okkar fína. Við mikinn fögnuð og fagnaðarlæti. H-in 3 sameinuð á ný, og allir gömlu góðu vinirnir að hittast eftir laaangan tíma. Ef þá er ekki tilefni til að skála, þá veit ég ekki hvað! Þá var stigið upp í langferðabíl og stefnan tekin á kirkjugarðinn og blóm lögð að leiði Álfhildar skólasystur okkar. Þaðan haldið, skiptu liði í öllum regnbogans litum, syngjandi, á vit ævintýranna í Holt í Önundarfirði. Öllum að óvörum var ræst í sandkastala, sjókastala, snjókastala keppni ,og var öllu til kastað. Í mínu liði að minnsta kosti og keppninni tekið mjög alvarlega og hátíðlega. Og öllum kröftum og brögðum beitt. Að lokinni keppni var skálað i OPAL að hætti Hönnu von opalcnapch. Og rúllað í bæinn. Í Tjöruhúsinu beið okkar svo fiskisúpa frá himnaríki, a´la Maggi Hauks og plokkari í ofanálag. Þessum guðaveigum var svo skolað niður með hvítvíni og hlátrasköllum. Varla hægt að gera betur, en viti menn... Bjarni okkar Brynjólfs nebndarmaður og ræðumeistari með meiru, hélt þar hina frægu, ÓGLEYMANLEGU ræðu, sem lengi verður höfð í mynnum. Var hann nú frægur fyrir!
Í týpísku Ísafjarðarlogni röltum við með spegilsléttum pollinum í hið íðilfagra og huggulega Edinborgarhús og ég verð að segja að mér fannst ég hreinlega vera komin til útlanda, ég var komin til Edinborgar! Í Edinborg var dansað eins og það kæmi aldrei nýr dagur og á köflum var ég orðin hrædd um að það kæmi ekki nýr dagur, ég væri að upplifa sama daginn aftur og aftur. Sama lagið aftur og aftur. Núna ertu hjá mér, Nína...
En allt tekur jú enda, líka þetta frábæra kvöld. Ég vissi ekki fyrr en annað brjóstið á mér fór að hringja og mamma var á línunni og sagði mér að koma heim. Hljómar kannski furðulega að mamman sé að reka 36 ára gamla konuna heim en svona er þetta nú bara. Og hljómar kannski enn furðulegar að brjóstið fór að hringja, en þar er best að geyma símann svo hringingin fari ekki framhjá mér. Litli einkasonurinn var eitthvað farinn að sakna mömmu sinnar, það var kominn tími á jæja. Majonesan orðin gul, Bára komin í bleyti og tími til kominn að fara heim. Með það rauk ég heim og leysti mömmu gömlu af hólmi og lagðist til svefns.
Og hlakkaði til morgundagsins..... Framhald síðar......Bloggar | 21.5.2008 | 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
En svo kemur að því að maður tekur upp á því að breyta aðeins út af vananum og fer að hitta fólk, utan heimilisins, barnlaus. Og þá rennur upp fyrir manni ljós..
.Það er pínu nauðsynlegt að sleppa takinu, loka hurðinni á eftir sér og fara út á meðal vina.Að kvöldi til eða um hábjartan dag, skiptir ekki máli. Þetta hef ég gert í nokkur skipti nú á vormánuðum og finnst það alveg ógeðslega skemmtilegt! Alls kyns hittingar svo sem afmæli, framkvæmdakonu hittingur, skáldaskála hittingur eða bara venjulegur vinkonu hittingur.
Ekki alls fyrir löngu hitti ég tvær af mínum betri vinkonum um hábjartan dag á veitingastað út í bæ og stefnan tekin á hvítvínsglas og huggulegheit með smá dass af kjaftasögum og öp-deiti á karla málum vinkvennanna. Svo mikið hafði á daga þeirra (eða nætur) þeirra drifið að ekki dugði minna en tvö hvítvínsglös með frásögnunum. Enda nóttin ung, rétt að bresta á með kvöldmat. Þarna sátum við og veltumst um af hlátri og flissuðum eins og unglingsstúlkur þar til Drápuhlíðardrottningunni þótti tímabært að hysja sig heim á leið og taka þátt í heimilislífinu. Og endaði þessi frábæra samverustund með flissi og göngutúr í hlíðarnar, rétt mátulega í kvöldmatar stúss og mjaltir hjá drottningunni. Hæst ánægð og glöð í bragði hellti hún sér dillandi í kvöldverkin á meðan hvítvínið hvarf hægt og rólega úr kroppnum og vinkonurnar hurfu út í nóttina.
Í gær var uppskeruhátíð í skáldaskálanum. Hittumst við eins og vanalega kl 18. En í þetta skiptið fámennt en góðmennt og skáluðum við í rauðvíni og snöruðum niður nokkrum ost sneiðum í tilefni dagsins og gleymdum okkur yfir guðaveigum og skemmtisögum. Fyrr en varði var klukkan farin að ganga 12 og enginn á heimilinu búinn að hringja. Greinilega allt með kyrrum kjörum á þeim bænum og ekki þörf á mínu handbragði við skeiningar og snýtingar það kvöldið. Kyrr kjör eru góð kjör segi ég nú bara! Þegar heim var komið var allt í rólegheitum, einkasonurinn búinn að borða og drekka, kominn í náttfötin, og búinn að sofa í nokkra tíma. Allt var í lagi. Bleyjan sneri rétt, hann fékk hollan og góðan mat, var í mátulegum náttfötum og sneri meira að segja rétt í rúminu. Allt gekk þetta upp þó ég kæmi hvergi nærri... Ég er kannski ekki alveg ómissandi.... hmmm..Úr því svo er.. get ég alveg haldið áfram að vera svona dagdrykkju kona Það nægir mér alveg og er bara ansi skemmtilegt og hentugt...
Nú þegar búið er að mála garðbekkinn og borðið, búið að planta myntulaufinu í kryddjurta beðið, sumarið rétt handan við hornið og ekkert eftir nema að setja hitarann upp er mér ekkert að vanbúnaði. Ég ætla að stofna samtök áhugafólks um áfengi og boða í hitting á svölunum eins oft og ég vil.... Allir velkomnirBloggar | 9.5.2008 | 02:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Eitthvað annað en þetta barnamauk og lífrænar kartöflur sem endalaust er verið að næra mann á!!
Namm namm!
Þetta þykir honum gott. Dauðfeginn að fá að smakka eitthvað nýtt, nú fær hann sér brauð með kæfu, kjúkling og ýmislegt annað sem fullorðnir fá sér að borða. En best og mest spennandi þykir honum sheriosið.
Ég var síst að skilja af hverju það var sherios hér um öll gólf, hvar sem ég steig var sherios . Inní eldhúsi, stofu, herbergi og meira að segja inná baði. Og hann sem fær bara að borða það inn í eldhúsi við eldhúsborðið.
En svo rann það upp fyrir mér. Þegar ég tók hann upp úr stólnum sínum sá ég að hann var með hring í sitt hvorum lófanum, inn í erminni, ofan í buxnastrengnum og uppábrotinu á buxunum. Vel falið til mögru áranna. Allir felustaðirnir og öll trikkin í bókinni notuð.
Svo þegar hann var lagstur á brjóstið til að fá sér ljúffengan desert fann ég einn, vel falinn, blautann og klístraðan, á bak við eyrað............................
Bloggar | 2.5.2008 | 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
ÉG mótmæli:
háu bíóverði
háu bensínverði
kulda
plássleysi
flugum og köngulóm
verðbólgu
hálsbólgu
hraðakstri
regnhlífum
löngum vetri
tímaleysi
háu verði á hvítvíni
staðsetningu Hlemms
spónaplötum í miðbænum
dýru flugfargjaldi
eiturlyfjum
gasi.
ÉG mótmæli mótmælum
ÉG mótmæli tískunni.
En mótmæli eru í tísku
og ég fylgi tískunni.
Unglingar stöðvuðu umferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 30.4.2008 | 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Já nú er mál að linni! Vorið er búið og sumarið komið og þá gengur ekki að sitja bara og horfa í kringum sig og hugsa um að fara að gera eitthvað.
Nei hugsa meira og framkvæma enn meira. Nú þarf að koma sér upp úr þessari moldarholu sem maður hefur setið í í allan vetur og planta einhverju litríku og fjörugu.Mála eldhúsvegginn, hengja upp myndir, setja niður vorlauka og sumarblóm, pússa garðbekkinn.... Breyta þessu hreysi í höll...! DrápuhlíðardrottninginBloggar | 24.4.2008 | 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fyrst mér tókst að setja mynd með síðustu færslu þá datt mér í hug að reyna aftur að setja myndbandið góða inn á síðuna.......
Bloggar | 23.4.2008 | 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Kannist þið við þetta?
Mér er sagt að þetta sé aldurinn, en ég er ekki viss því mér finnst ég nú ekkert sérstaklega öldruð.
Time flyes when you´r having fun, ég sætti mig frekar við þetta hugtak. Á góðri íslensku!
En svo hratt flýgur tíminn að litli einkasonurinn er orðinn rúmlega 7 mánaða segi ég og skrifa, 7 mánaða gott fólk! Ég er ekki fyrr komin heim af fæðingardeildinni þegar hann er kominn með 5 tennur og er farinn að æða hér um öll gólf í göngugrindinni. Við köllum það að dreifa Huganum á þessu heimili. Svo er hann farinn að gera sig líklegan til að skríða af stað, út í óvissuna. Í dag sat hann hinn rólegasti á mottunni sinni, fitjaði upp á trýnið svo skein í litlu tennurnar, og lagði svo af stað í langferð. Ég ákvað að láta Hugann reika aðeins og sjá hvar hann myndi enda. Eftir mikið bras og basl náði hann að koma sér fram fyrir sig og lagðist á magann og reyndi eins og hann gat að komast áfram. Eitthvað gekk það nú illa og ekkert gerðist nema hann færðist aðeins til hliðar og svo aftur á bak. Og þannig festist hann, í bakkgír. Doldið pirraður hélt hann áfram að bakka með nokkrum tilraunum til skipta um stefnu og smátt og smátt var hann búinn að reika í heilan hring á holinu. Duglegi kallinn. Þess er ekki langt að bíða þar til hann verður staðinn upp og farinn að hlaupa um allt, og þá er ég ansi hrædd um að ég eigi fullt í fangi, áður en allt í óefni fer, að fanga Hugann!!
Bloggar | 23.4.2008 | 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Tenglar
Mínir tenglar
- Nanortalik -Grænland blogg frá grænlandi
- Árgangur 1972 Skemmtilegur árgangur
- Fréttir úr Fjarðarstræti Hér fáum við að vita hvað litla og stóa eru að bralla
- Áslaug Inga Barðadóttir skartgripir
- ljósmyndir flinkur og sætur ljósmyndari
Veðrið í Nanortalik grænland
Bloggvinir
Feb. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | ||||||
2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 |
9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 |
16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 |
23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar